136 með salmonellusýkingu

Alls greindust 136 salmonellatilfelli á sýklafræðideild LSH á síðasta ári.
Alls greindust 136 salmonellatilfelli á sýklafræðideild LSH á síðasta ári. mbl.is/Ásdís

Alls greindust 136 einstaklingar með salmonellu á árinu 2008 samkvæmt tilkynningum frá sýkladeild Landspítala. Fram kemur í Farsóttafréttum landlæknisembættisins, að þetta er nokkuð hærri tala en árið á undan en þá greindust 93 einstaklingar með salmonellu. Uppruni smits var í flestum tilfellum erlendis.

Sýkingin er algengari yfir sumarmánuðina, sem sennilega má skýra með auknum ferðalögum Íslendinga til útlanda á þeim árstíma. Aukning varð á innlendum tilfellum í júní  vegna hópsýkingar á sambýli aldraðra á höfuðborgarsvæðinu. Í ágúst og september jukust einnig tilfelli vegna salmonellusmits sem rekja mátti til eyjarinnar Ródos.

Nokkuð var um innlendar sýkingar í ágúst, en engin tengsl voru á milli þeirra tilfella og salmonellutegundirnar mismunandi.

Samtals greindust 97 einstaklingar með kampýlóbakter á árinu 2008

samkvæmt tilkynningum frá sýkladeild Landspítala, sem er svipaður fjöldi og árið á undan. Fjöldi tilfella jókst yfir sumarmánuðina eins og síðastliðin ár. Stafar það bæði af fjölgun sýkinga af innlendum toga og tíðum ferðalögum Íslendinga til útlanda yfir sumarmánuðina.

Töluvert var um salmonellu- og kampýlóbaktersýkingar í aldurshópnum 15–24 ára, þær voru færri meðal einstaklinga á aldrinum 30–39 ára, en upp úr fertugu fór fjöldi sýkinga aftur hækkandi. Nokkuð margir í aldurshópnum 15–19 ára urðu fyrir barðinu á salmonellusýkingunni sem upp kom á eyjunni Ródós, enda voru framhaldsskólanemar stór hluti ferðalanganna þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert