„Sýður á mönnum vegna 5% landsbyggðarskattsins“

„Það sýður á mönnum vegna þessa 5% landsbyggðarskatts, sem við köllum þær fyrningarhugmyndir aflaheimilda sem Samfylkingin og VG hafa verið að boða. Þannig að ég reikna með fjölmenni á fundinn í kvöld,“ segir Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Hellissands hf. og formaður Útvegsmannafélags Snæfellsness.

Félagið hefur í samvinnu við Snæfell, félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, boðað til fundar með fulltrúum allra flokka í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík klukkan 20 í kvöld.

Sverrir Pétursson, útgerðarstjóri hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru hf., er harðorður í garð fyrningarleiðarinnar í grein sem hann birtir á vef BB á Ísafirði. Hann segir að hugmyndum um fyrningu aflaheimilda um 5% á ári  megi e.t.v. best líkja við skottulækningar. Sjúklingurinn sé sjaldnast til frásagnar eftir aðgerð.

Sverrir segir í grein sinni að Samfylkingin leggi ofurkapp á aðild að ESB og að Ísland sé virkt í samfélagi þjóðanna. Útgerðarstjórinn segir í lok greinarinnar um fyrningarhugmyndir aflaheimilda; „Þær eru aðför að ábyrgri fiskveiðistjórnun, aðför að rekstargrundvelli sjávarútvegsfyrirtækja, aðför að atvinnuöryggi sjómanna og fiskverkafólks og síðast en ekki síst ávísun á verðfall eigna fólks í NV-kjördæmi.“

Grein Sverris Péturssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina