Séð til þess að allir geti kosið í Horsens

Íslenskir námsmenn í Horsens í Danmörku eru æfir yfir því að þeim hafi verið vísað frá þegar þeir hugðust taka þátt í þingkosningunum og greiða utankjörfundaratkvæði hjá ræðismanninum í bænum í dag. Skv. upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu verður séð til þess að allir geti kosið á morgun

Kjörstaðurinn verður opinn frá kl. 14:30 til 16. Gerist þess þörf þá verður kjörstaðurinn opinn lengur.

Um 50 kjósendur mættu á kjörstað í dag. Að sögn Maríu Líndal, sem stundar nám í bænum, náðu aðeins um 20 Íslendingar að greiða atkvæði í kosningunni. Hún bendir á að kjörstaðurinn hafi aðeins verið opinn í um einn og hálfan tíma, eða frá 14-15:30.

Hún segist hafa mætt á kjörstað ásamt hópi skólafélaga sinna um kl. 15 í dag, en þau tóku sér öll frí til þess að kjósa. Þegar þau komu á staðinn var þeim tjáð að ekki yrði tekið við fleirum í dag. Urðu því margir frá að hverfa.

Sem fyrr segir hafa þær upplýsingar fengist frá utanríkisráðuneytinu að séð verði til þess að allir geti kosið á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert