Siv slegin yfir ævintýralegri atburðarás

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður segir trúnaðargögn um Icesave deiluna sem kynnt voru á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun leiða í ljós að hún hafi haft ranga mynd af gangi mála. Hún skorar á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að gera gögnin opinber. Nefndarmenn mega ekki tjá sig um gögnin. Atburðarrás bankahrunsins sé ævintýralegri en hún hafi nokkurn tímann ímyndað sér og hún sé slegin yfir þeim upplýsingum sem hafi komið fram. Málið hafi þó ekki skýrst mikið. Það standi enn orð á móti orði um Icesaveábyrgðirnar.

Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra var gestur á fundinum. Hann segir ekkert þar hafa komið sér á óvart en taldi að gögnin gætu skýrt ýmislegt fyrir þingmönnum sem þeir vissu ekki áður.

Árni Þór Sigurðsson formaður Utanríkismálanefndar sagði gögnin komin frá rannsóknarnefnd um bankahrunið og efni þeirra yrði sjálfsagt opinbert þegar nefndin lyki störfum. 

mbl.is