Óformlegar stjórnarmyndunarviðræður í dag

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon munu ræðast við í …
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon munu ræðast við í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, munu ræða óformlega saman í dag um áframhaldandi samstarf flokkanna. Jóhanna Sigurðardóttir mun þá líklega leita eftir fundi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á morgun.

Vera kann að varaformenn flokkanna sitji fundinn líka, en þingflokkarnir verði ekki kallaðir saman fyrr en á morgun. „Við munum ganga vasklega í þetta eins og annað sem að við tökum okkur fyrir hendur,“ segir Steingrímur og er bjartsýnn á áframhaldandi samstarf. „Við erum saman í ríkisstjórn og fengum gríðarlega góðan stuðning frá þjóðinni til að halda því áfram. Það væri nú afar óhefðbundið ef að flokkar sem hafa verið í góðu samstarfi og sem að engan skugga hefur borið á byrjuðu ekki á að ræða saman um framhaldið.“

Þegar Jóhanna er spurð hvort að landsmenn megi búast við niðurstöðum úr þeim stjórnarmyndunarviðræðum VG og Samfylkingar fljótlega segir hún hins vegar að ekkert liggja á. Þau Steingrímur muni ræðast við í dag og hún leita eftir fundi forseta í framhaldi af þeim viðræðum. „Það er nauðsynlegt að fá ákveðnar skýrar línur, t.d. varðandi aðildina að ESB sem að við leggjum mikla áherslu á,“ segir Jóhanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina