Búist við að helmingur þjóðarinnar gæti sýkst

Í áhættumati, sem gert hefur verið á vegum landlæknisembættisins vegna hugsanlegs heimsfaraldus inflúensu, er gert ráð fyrir því að helmingur þjóðarinnar muni sýkjast á 12 vikna tímabili og allt að 3% þeirra, sem sýkjast, geti látist.

Síðastliðin 400 ár hefur heimsfaraldur inflúensu farið um heiminn þrisvar til fjórum sinnum á hverri öld. Á síðustu öld gengu yfir þrír heimsfaraldrar inflúensu. Fyrst kom spænska veikin 1918–1919, en talið er að allt að 50 milljónir manna, aðallega ungt fólk á aldrinum 20–40 ára, hafi látist af völdum hennar. Á Íslandi létust um 500 manns. Næstu heimsfaraldrar voru Asíuinflúensan 1957–1958 og Hong Konginflúensan1968–1969, en manntjón í þessum faröldrunum var mun minna en í spænsku veikinni.

Næstum 40 ár eru frá því að síðasti heimsfaraldur reið yfir og er það  óvenju langur tími milli slíkra faraldra í sögulegu samhengi. Nú er óttast að svonefnd svínaflensa, sem komið hefur upp í Mexíkó og Bandaríkjunum, gæti orðið að heimsfaraldri.

Hérlendar viðbragðsáætlanir miða að því að tefja útbreiðslu faraldursins og draga úr alvarlegum afleiðingum hans. Í áhættumatinu segir, að ólíklegt megi telja að fullkomlega verði hægt að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar hér á landi. Áætlað sé að samhæfðar viðbragðsáætlanir eins og unnið hefur verið að hér á landi muni fækka sjúkdómstilfellum og draga úr alvarlegum afleiðingum faraldursins. 

Þá segir, að gera megi ráð fyrir að atvinnulífið hér á landi lamist í tvær til þrjár vikur, en með gerð viðbragðsáætlunar sé reynt að lágmarka þann skaða sem sjúkdómurinn valdi. En þrátt fyrir að öllum tiltækum ráðstöfunum verði beitt  megi alltaf búast við ófyrirséðum afleiðingum.  Reikna megi með að fjárhagsleg afkoma heimila rýrni tímabundið, verðmæti glatist, til dæmis sjávarfang vegna skorts á vinnuafli og þjóðartekjur minnki í ákveðinn tíma.

Áhættumat vegna heimsfaraldurs inflúensu

Hér er hægt að fylgjast með nýjustu upplýsingum 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert