Aldrei þvegið sér jafn oft um hendur

Ferðamenn flykkjast nú frá Mexíkó þar sem svínaflensan geisar.
Ferðamenn flykkjast nú frá Mexíkó þar sem svínaflensan geisar. Reuters

„Lífið er lamað. Allir skólar eru lokaðir til 6. maí, öll dagheimili, veitingastaðir, bíó og kirkjur,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir sjálfboðaliði sem býr í bænum Ocotlan í Mexíkó. Sjö hafa veikst af svínaflensu í Ocotlan og eru tveir þeirra á gjörgæsludeild. Í bænum búa um 130.000 manns.

Hólmfríður sagði að ástandið sé ekki jafn slæmt í Ocotlan og í Mexíkóborg. Hún hefur starfað sem sjálboðaliði á vegum AUS í Mexíkó síðan í ágúst 2008 og vinnur á dagheimili, sem nú er lokað.

Ekki er jafn mikill ótti við svínaflensuna í Ocotlan og í Mexíkóborg, að mati Hólmfríðar. Hún býr í fátækasta hverfi borgarinnar og þar er samgangur fólks ekki mjög mikill. Hún sagði miklar sögusagnir og óstaðfestar fréttir á kreiki. Þannig hafði hún heyrt að fjórir hefðu dáið í bænum La Barca, sem er um hálftíma keyrslu frá Ocotlan.

Hólmfríður sagðist ekki hafa farið út fyrir hússins dyr síðan hún kom heim úr vinnunni á mánudaginn var. „Maður verður bara að passa sig,“ sagði Hólmfríður. „Maður má fara út og allir eru með grímur. Það er nauðsynlegt því þetta smitast með andardrætti. Ég hef aldrei þvegið mér jafn oft um hendurnar og ég geri núna. Tuttugu sinnum á dag eða eitthvað og alveg upp á olnboga.“

Ættingjarnir heima á Íslandi eru áhyggjufullir að sögn Hólmfríðar. „Það þarf ekkert að vera með áhyggjur, það er ekki hægt að gera neitt i þessu. Maður verður bara að vera rólegur og skynsamur. Ástandið er ekki eins alvarlegt hér og í Mexikóborg,“ sagði Hólmfríður.

Hólmfríður Magnúsdóttir segir lífið vera lamað í Mexíkó vegna svínaflensunnar.
Hólmfríður Magnúsdóttir segir lífið vera lamað í Mexíkó vegna svínaflensunnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert