Vill neyðarlög um íbúðalán

Talsmaður neytenda leggur til að Alþingi setji nú þegar lög sem kveði á um að allir samningar um lán til neytenda sem veitt höfðu verið fyrir bankahrun, 7. október 2008, hvort sem er í íslenskum krónum eða erlendri mynt, einni eða fleiri, gegn veði í íbúðarhúsnæði, verði teknir eignarnámi ef kröfuréttindin eru ekki þegar í eigu ríkisins.

Kröfuhöfum verði bætt eignarnámið í samræmi við lög um framkvæmd eignarnáms. Talsmaður neytenda leggur þó til að umráð krafnanna flytjist þegar yfir til ríkisins án tryggingar og að heimilt verði að greiða eignarnámsbætur á lengri tíma í stað staðgreiðslu.

Þá leggur talsmaður neytenda til að allar íbúðaveðskuldir, sem stofnað var til fyrir 7. október 2008, verði færðar niður eftir mælikvarða sérstaks fimm manna gerðardóms sem Hæstiréttur skipi. Tveir fulltrúar í gerðardómnum verði fulltrúar skuldara og sameiginlega tilnefndir af Neytendasamtökunum, Hagsmunasamtökum heimilanna og Húseigendafélaginu en í þessum samtökum eru samtals tæplega 22 þúsund félagsmenn.

Þá verði tveir fulltrúar í gerðardómnum fulltrúar kröfuhafa, sameiginlega tilnefndir af Landssamtökum lífeyrissjóða, félagsmálaráðherra vegna Íbúðalánasjóðs og fulltrúum erlendra kröfuhafa þeirra fjármálafyrirtækja sem neyðarlögum var beitt á í kjölfar bankahrunsins.

Loks er lagt til að Hæstiréttur skipi formann gerðardómsins.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segir að kostnaður liggi ekki fyrir eða öllu heldur geti hann ekki legið fyrir, þar sem tillagan lýtur að tiltekinni málsmeðferð en ekki tiltekinni niðurstöðu. Þá sé ekki heldur lögð til nein hlutfallsleg niðurfærsla íbúðaveðlána.

Bindandi leiðrétting í eitt skipti 

Talsmaður neytenda hefur kynnt tillögur sínar fyrir ríkisstjórn, auk formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Með tillögunum segist talsmaður neytenda leitast við að bregðast við brotum gegn réttindum og hagsmunum neytenda og finna skjóta og skilvirka lausn á vanda heimilanna. Markmiðið er að draga úr miklu misvægi eigna og skulda neytenda í kjölfar efnahagshrunsins. Ennfremur að stuðla að því að hagsmunir og réttindi neytenda séu höfð að leiðarljósi þegar fundin verður lausn á skuldavanda þeirra og samráð haft við fulltrúa þeirra. Tillögurnar miða ennfremur að því að leggja grunn að endurreisn fasteignamarkaðar, létta með varanlegum og almennum hætti greiðslubyrði neytenda og standa vörð um sjálfseignarstefnu gagnvart íbúðarhúsnæði neytenda og afstýra því sem nefnt hefur verið þjóðnýting íbúðarhúsnæðis.

Talsmaður neytenda segir að með þessu verði viðurkennt að afar litlar líkur voru á efnahagshruni og verðbólgukúfi sem neytendur hafa orðið fyrir undanfarin misseri og jafnframt deili lánveitendur og neytendur tjóninu.

Aðrir valkostir

Talsmaður neytenda segir aðra valkosti í stöðunni. Alþingi gæti samþykkt afturvirk lög um hópmálsókn sem kæmu þá í stað eignarnámsþáttar tillagna hans.

Ennfremur mætti hugsa sér þríhliða samninga ríkis, kröfuhafa og neytenda um niðurfærslu íbúðaveðlánasamninga með sambærilegri niðurstöðu og stefnt sé að með eignarnámi og gerðardómi.

Uppboð skuld á alþjóðlegum vettvangi er enn einn kostur.

Frétt á síðu talsmanns neytenda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert