Á fjórða hundrað vilja stefna bönkunum

mbl.is

Hátt á fjórða hundrað manns hafa skráð sig hjá lögmönnum Laugardal til þátttöku í hópmálsókn gegn gömlu bönkunum þremur. Lántakendur telja forsendur lána sinna hjá bönkunum brostnar og vilja meðal annars að láta reyna á ákvæði í samningalögum um að víkja samningi til hliðar í heild eða hluta vegna atvika sem síðar komu til.

Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður hjá lögmannsstofunni, Lögmenn Laugardal skýrði frá þessu í morgunþætti Bylgjunnar. Hann sagði að mun fleiri hefðu leitað til lögmannsstofunnar en á fjórða hundrað hefðu ákveðið að taka þátt í málsókninni.

Fyrirkomulag málshöfðana verður með þeim hætti að málum þeirra sem vilja taka þátt, verður skipt upp í flokka og eitt mál verður valið úr hverjum flokki fyrir sig og rekið sem prófmál um þau álitaefni sem þar eiga við. Þannig verður tryggt að efnisleg úrlausn dómstóla fáist, þannig að öllum gagnist. Lögmenn segja þetta í raun eina fyrirkomulagið til að koma málum fyrir dómstóla, enda séu engin heildstæð ákvæði í íslenskri löggjöf sem mæla fyrir um heimildir til hópmálssóknar, eins og t.d. á hinum Norðurlöndunum.

Björn Þorri Viktorsson segir stjórnvöld vera að bregðast almenningi með því að setja ekki lög um hópmálsókn. Frumvarp þar um var lagt fyrir Alþingi í byrjun mars en komst ekki á dagskrá.

Lögmenn Laugardal bjóða lántakendum að taka þátt í málarekstrinum fyrir 59.760 krónur með virðisaukaskatti.

Vonast er til að fyrstu málunum verði stefnt fyrir héraðsdóm í byrjun maí.

mbl.is