Formleg kæra lögð fram

Frá Heiðmörk
Frá Heiðmörk mbl.is/Áslaug

 Fjölskylda stúlkunnar sem varð fyrir árás kynsystra sinna í Heiðmörk í gær er að leggja fram kæru gegn stúlkunum en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er málið í rannsókn. Stúlkurnar hafa ekki enn verið yfirheyrðar vegna árásarinnar.

Engin stúlknanna hefur verið handtekin vegna málsins en lögreglan bíður formlegrar kæru sem verið er að leggja fram núna en málið hefur verið tilkynnt til lögreglunnar.

Hrönn Óskarsdóttir, systir fimmtán ára gamallar stúlku sem varð fyrir árásinni, segir að þau hafi viljað bíða með kæruna þar til nú svo stúlkan gæti náð að jafna sig aðeins áður en farið yrði til rannsóknarlögreglunnar. Að sögn Hrannar er ein árásarstúlknanna með þrjár líkamsárásarkærur á bakinu. „Þetta þarf að stöðva áður en einhver hlýtur varanlega örkumlun eða deyr eftir svona árás," sagði Hrönn í samtali við mbl.is.

Hún segir að fjölskyldan sé staðráðin í að fara með málið alla leið enda ekki hægt að láta þessar stúlkur leika lausum hala og bíða þess að einhver annar verði fyrir þeim.

Stúlkan er með töluverða áverka í andliti þó að hún sé ekki brotin.

Að sögn Hrannar hafði stúlka sem að systir hennar átti í deilum við beðið hana að hitta sig í þeim tilgangi að sættast. Systir hennar hafi stuttu síðar verið sótt af tveimur stúlkum á bíl. Þaðan hafi verið keyrt í Suðurver, þar sem fimm til viðbótar bættust í hópinn, áður en haldið var í Heiðmörkina. Er þangað var komið gengu tvær þeirra í skrokk á henni og beindu höggunum sérstaklega í andlit og höfuð hennar. Drengur sem hafði elt þær á öðrum bíl stöðvaði loks árásina og segir Hrönn ekki hafa mátt seinna vera. „Hún var send í sneiðmyndatöku upp á spítala og þeim fannst ótrúlegt að hún væri ekki brotin.“

Stúlkurnar óku loks með systur hennar til Hafnarfjarðar, hótuðu lífláti og skildu hana eftir við verslunarmiðstöðina Fjörð. Þar hringdi hún í foreldra sína, sem fóru með hana á slysadeild.

Að sögn Hrannar sagði sérfræðingur sem skoðaði systur hennar í  gærkvöldi að ekki hefði þurft nema eitt högg á réttan stað þá hefði skaði skeð sem ekki hefði verið aftur tekinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert