Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir varla hægt að hugsa sér hvað því fólki gangi til, sem hvetji annað fólk til að hætta að borga af lánunum sínum. Slíkt geti í langflestum tilfellum ekki þjónað hagsmunum annarra en innheimtulögfræðinga.
Margir Íslendingar eru í erfiðri fjárhagsstöðu og greiðslubyrðin þung. Dæmum fer fjölgandi um fólk sem ákveður að hætta að borga af lánum sínum.
„Það er búið að grípa til víðtækra ráðstafana til að gera fólki kleift að standa í skilum, með því að létta greiðslubyrði bæði vegna verðtryggðra lána og gengistryggðra,“ segir Gylfi. Fólk með verðtryggð lán geti fengið lækkun á greiðslum í hverjum mánuði og fengið greiðslurnar tengdar vísitölu sem tekur mið af launaþróun og atvinnustigi. „Varðandi erlendu lánin eru núna komin úrræði sem gera fólki kleift að fá sambærilega greiðslubyrði og var vorið 2008, áður en krónan fór að gefa verulega eftir.“
En margir hafa misst vinnuna og geta því ekki heldur staðið undir greiðslubyrðinni sem áður var viðráðanleg. „Fyrir þá sem hafa orðið fyrir einhverjum sérstökum búsifjum eins og t.d. að missa vinnuna eða lent í erfiðleikum af öðrum ástæðum, þá hafa lánveitendur skuldbundið sig til að veita sambærileg úrræði eins og Íbúðalánasjóður. Það er hægt að fá tímabundna frestun á greiðslum,“ bætir Gylfi við.
Fyrir þá allra verst stöddu sé kominn sá möguleiki að fara í greiðsluaðlögun og fá tilsjónarmann.
Öll skilyrði hafi því verið sköpuð svo fólk geti áfram staðið í skilum, átt sitt húsnæði og nýtt það áfram. „Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa tilkynnt ná því markmiði í langflestum tilfellum. Vaxtabætur voru líka auknar allverulega, sem nýtist þeim einna best sem eru með litlar eignir og lágar tekjur,“ segir Gylfi.
En þrátt fyrir allt þetta er þó til það fólk sem virðist ekki sjá annað en gjaldþrot framundan. Gylfi neitar því ekki að margir hafi orðið fyrir mjög miklu tapi og standi eftir með miklar skuldir. Það sé þó hins vegar langoftast ekki venjulegt launafólk sem hafi ekki staðið í atvinnurekstri eða áhættusömum fjárfestingum. Sá hópur venjulegs launafólks sem ekki geti nýtt sér fyrrgreind úrræði sé afar fámennur.
Hann segir því mjög mikilvægt að fólk haldi sínu striki og reyni að standa undir skuldbindingum sínum. Þá ætti það flest að geta haldið sínu húsnæði og eignast það skuldlaust á endanum.