Furða sig á ummælum ráðherra

Frá kynningarfundi Borgarahreyfingarinnar.
Frá kynningarfundi Borgarahreyfingarinnar.

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar lýsa furðu sinni og vanþóknun á yfirlýsingum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra vegna yfirvofandi greiðsluverkfalls. Hafa þeir sent frá sér tilkynningu af þessu tilefni.

„Þinghópur Borgarhreyfingarinnar áréttar að skuldastaða heimilanna er alvarlegri en svo að ráðin verði bót á með smáskammtalækningum. Greiðsluverkfall er örþrifaráð sem engir vilja grípa til nema þeir sem ekki sjá aðrar lausnir.

Með hverjum deginum sem líður verður brýnna að grípa til heildstæðra neyðarlausna á vanda þeirra þúsunda sem tóku verðtryggð eða myntkörfuhúsnæðislán í góðri trú.

Þinghópur Borgarahreyfingarinnar krefst þess að stjórnvöld grípi þegar í stað til róttækra almennra aðgerða til bjargar heimilinum í landinu, samanber tillögu Borgarahreyfingarinnar um leiðréttingu lánavísitölu aftur til 1. janúar 2008 og afnámi verðtryggingar lána,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina