Íslendingar meðal hávöxnustu þjóða

Íslenskar konur eru hávaxnastar kvenna í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, samkvæmt nýrri skýrslu, sem fjallar um heilsufar og lífsvenjur í aðildarríkjunum. Þá eru íslenskir karlar í þriðja sæti á eftir Hollendingum og Dönum.

Samkvæmt skýrslunni eru íslenskar konur að jafnaði um  168 sentimetrar á hæð og íslenskir karlmenn að jafnaði rúmlega 180 sentimetrar. Mexíkóar eru minnstir.

Íslenskir karlmenn verða allra karla elstir og geta búist við að verða 79,4 ára. Íslenskar konur eru í 8. sæti og geta átt von á að ná 83 ára aldri.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að vinnuvikan á Íslandi er sú lengsta, eða 43.9 stundir að jafnaði þegar öll störf eru talin með. Styst er hún í Hollandi, 31,6 stundir.

Í skýrslunni kemur fram, að Frakkar borða og sofa meira en aðrar aðildarþjóðir OECD. Meðal Frakkinn sefur um það bil 9 stundir á nóttu en Kóreumenn og Japanar sofa innan við átta stundir að jafnaði. Þá eyða Frakkar að jafnaði 2½ stund á dag í að snæða en til samanburðar eyða Mexíkóar rúmlega einni klukkustund á dag í þessa iðju. 

Danir eru ánægðastir með lífið en Tyrkir óánægðastir; Íslendingar eru þar í miðjum hópi. Mexíkóar njóta vinnunnar mest og Kóreumenn minnst.  

Í skýrslunni kemur fram, að ítalskir karlmenn hafa rúmlega 80 mínútna lengri frítíma á dag en þarlendar konur. Norðmenn verja um fjórðungi tíma síns til tómstundaiðju og nánast enginn munur er á frítíma karla og kvenna þar í landi.  

Lesa má úr skýrslunni, að Íslendingar séu ekki hræddir við að verða fórarlamb glæpa en aðeins 6% Íslendinga sögðust óttast að ganga einir um götur eftir myrkur. Til samanburðar sögðust 36% íbúa Lúxemborgar óttast slíkt. 

Japanar nota um 55% af tíma sínum, þegar þeir eru ekki að vinna eða sofa,  í að horfa á sjónvarp. Tyrkir nota 35% af þessum tíma til að sinna vinum sínum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina