Ekki lengur unnt að senda nafnlaus SMS hjá Símanum

mbl.is/Kristinn

Frá og með deginum í dag verður ekki unnt að senda nafnlaus SMS skilaboð af heimasíðu  Símans, heldur verða öll SMS skilaboð auðkennd með símanúmeri sendanda. Tilgangurinn er að auka öryggi við notkun SMS skilaboða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

„Einungis viðskiptavinir Símans munu eftirleiðis geta nýtt sér Vef-SMS og þá eingöngu með því að auðkenna sig með símanúmeri.  Viðtakandi SMS-skilaboða veit því ávallt hver sendandinn er,“ segir í tilkynningunni.

„Þess eru dæmi að þjónusta á borð við auðkennislaus SMS hafi verið misnotuð í viðskiptum með fíkniefni sem og í eineltismálum. Síminn hefur átt í góðri  samvinnu við SAFT,  Vakningarátaki um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi, sem fagnar þessari ákvörðun.  SAFT skilgreinir rafrænt einelti líkt og annað einelti, það er þegar einstaklingur verður fyrir endurteknu neikvæðu áreiti frá öðrum einstaklingi eða einstaklingum og á erfitt með að verjast því. Ein leið rafræns eineltis er þegar nafnlaus SMS eru notuð til að koma niðrandi og oft og tíðum meiðandi upplýsingum um einstakling á framfæri,“ segir ennfremur.

Nánar á vef Símans.

mbl.is

Bloggað um fréttina