„Eins og blaut tuska“

„Ef spá Seðlabankans [um gengi krónunnar innsk. blm.] gengur eftir er það auðvitað mjög alvarlegt fyrir sveitarfélögin. Það má segja að hún komi eins og blaut tuska framan í þau, þar sem menn höfðu vonast eftir því að krónan styrktist allverulega. Það eina sem við getum vonað er að útflutningstekjur verði sem allra mestar og bæti þannig stöðuna,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í Peningamálum Seðlabankans, sem komu út á miðvikudag, kemur fram að gengi krónunnar gagnvart evru muni ekki styrkjast eins mikið og áður hafði verið talið, samkvæmt spá bankans. Er meðal annars talið að evran muni ekki kosta minna en 145 krónur en hún kostar nú 168 krónur. Skuldir sveitarfélaga, og þá einkum dótturfyrirtækja þeirra s.s. orkuveitna og hafnarsjóða, eru að stórum hluta í erlendri mynt og því hefur veiking krónunnar haft veruleg áhrif á efnahag þeirra. Það sama má segja um fjölmörg fyrirtæki og heimili sem eru með skuldir í erlendri mynt en tekjur í krónum.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir viðvörunarorð Seðlabankans varðandi skuldsetningu í erlendri mynt hafa verið hundsuð. „Það hefur ýmislegt verið sagt um Seðlabanka Íslands í umræðu um efnahagsmál en það er ekki hægt að segja að Seðlabankinn hafi ekki varað við lántökum í erlendri mynt á meðan tekjurnar eru í krónum. Það hafa forsvarsmenn bankans gert við ýmis tilefni undanfarin ár,“ sagði Þórarinn.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert