Ísbjörninn blekking

Mynd send úr síma Páls L. Sigurjónssonar, hótelstjóra Hótel KEA.
Mynd send úr síma Páls L. Sigurjónssonar, hótelstjóra Hótel KEA. Páll L. Sigurjónsson

Frásagnir af ferðum ísbjarnar  í Skagafirði voru lygar frá upphafi til enda. Hvatamenn að blekkingunum voru Sigurður Guðmundsson, verslunarmaður á Akureyri og Páll L. Sigurjónsson, hótelstjóri Hótels KEA á Akureyri, en þeir voru ásamt félögum sínum úr oddfellowhreyfingunni að skemmta sér og ákváðu að ljúga til um ísbjörninn.

Páll L. Sigurjónsson, hótelstjóri Hótel KEA sendi frá netfangi sínu á hótelinu nokkrar myndir og var hringt í hann í kjölfarið. Hann vísaði á félaga sinn, Sigurð Guðmundsson, verslunarmann á Akureyri sem játti því að um ísbjörn væri að ræða. Sigurður gaf frekari lýsingar í kjölfarið.

Fréttavefur mbl.is hringdi í þrígang í Sigurð og þráspurði um atburðinn og sagði Sigurður ávallt sömu sögu.

Þegar fréttavefur mbl.is fékk fregnir af því að um lygar væri að ræða, var enn hringt í Sigurð Guðmundsson. Þá játti hann því að um uppspuna væri að ræða. Hann sagði að tæplega 30 Oddfellowar hefðu verið að skemmta sér eins og hann orðaði það og fundist vanta jákvæðar fréttir. Því hefðu þeir ákveðið að ljúga að fjölmiðlum.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að um háalvarlegt mál sé að ræða enda hafi allt kerfi þeirra virkjast. Lögreglumenn og skyttur hafi verið ræstar út. „Ég held að mennirnir hafi ekki gert sér grein fyrir hvað færi í gang, eða hvað þeir væru að gera. Þetta er ofboðslega óábyrgt.

Ríkarður Másson, sýslumaður á Sauðárkróki, tekur í sama streng og segir allt verða gert til að láta mennina sæta ábyrgð.

mbl.is harmar að hafa látið blekkjast og biður lesendur sína afsökunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina