Kynna skattahækkun eftir helgi

Ríkisstjórnin ætlar að kynna áætlun sína um skattahækkanir fljótlega eftir að þing kemur saman. Jóhanna Sigurðardóttir sagði í gær að ríkisstjórnin myndi ekki taka hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu til sín í gegnum skattkerfið en ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefði gert í góðærinu.

Jóhanna sagði í samtali við mbl sjónvarp á Reykjavíkurflugvelli í morgun að það væri ágætt að hafa til hliðsjónar að þótt skattar þurfi að hækka talsvert verði ríkið ekki að fá af því meiri tekjur en á síðustu árum. Unnið verði samkvæmt þeirri reglu að skattbyrði verði aukin hjá þeim sem megi við því frekar en þá sem hafi litlar og meðaltekjur. Sú regla verði líka höfð til hliðsjónar þegar komi að niðurskurði útgjalda. Aðspurð um hversu mikið tekjuskattur yrði hækkaður, svaraði Jóhanna að það muni liggja fyrir fljótlega eftir að þing kemur saman.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar fóru til Akureyrar í morgun þar sem fyrsti ríkisstjórnarfundurinn er haldinn.

Persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing eru meðal  þess sem ríkisstjórnin ætlar að ræða á þessum fundi, sem og mál sem snerta endurreisn bankanna.

Fyrsta mál á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar er þó sóknaráætlun fyrir landsbyggðina en þar eru samþættar ýmsar áætlanir sem snerta landsbyggðina, svo sem byggðaáætlun, samgönguáætlun og áætlun í ferðamálum og efling sveitarstjórnarstigsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina