Óásættanlegt ástand

Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

„Mér finnst óásættanlegt að þessi mál séu ekki í lagi,“  segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna, og vísar þar til tannheilbrigðismála íslenska barna. Segist hún hafa óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra til þess að ræða stöðuna. Segir hún ljóst að ráðuneytið þurfi í samvinnu við tannlækna að beita sér fyrir því að finna lausn. 

Að mati Margrétar þarf að skoða tillögur fagmanna gaumgæfilega, en meðal þess sem heyrst hefur í umræðunni að undanförnu er að leikskólastarfsfólk fari á ný að bursta tennur leikskólabarna auk þess sem margir hafa kallað eftir því að skólatannlækningar verði endurvaktar. 

Aðspurð segir Margrét að umboðsmanni barna berist reglulega erindi vegna hrakandi tannheilsu barna á Íslandi og hafi ítrekað vakið athygli á þessu vandamáli.

Bendir hún á að samkvæmt Munnís rannsókn frá árinu 2005 hafi tannheilsu íslenskra barna hrakað síðustu árin og sé hún nú mun verri en á hinum Norðurlöndunum.

Að sögn Margrétar bendir sú umfjöllun sem átt hafi sér stað í tengslum við ókeypis tannlæknaþjónustu, sem Hjálparvakt tannlækna hefur boðið upp á undanfarið, til þess að ástandið sé jafnvel enn verra en niðurstöður rannsóknar Munnís beri með sér.

Gesti setti hljóðan

Margrét sat fyrr í þessum mánuði norræna tannheilbrigðisráðstefnu þar sem þátt tóku umboðsmenn barna á Norðurlöndum. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Hlutverk tannheilbrigðisþjónustu í tengslum við vanrækslu og ofbeldi.“

Að sögn Margrét lýsti hún á ráðstefnunni hinu alvarlega ástandi tannheilbrigðismála hérlendis og segir að norræna starfsfélaga hennar hafi sett hljóðan við þær lýsingar. 

„Við viljum auðvitað bera okkur saman við Norðurlöndin þegar kemur að málefnum barna. Þannig að ég tel það hafa áhrif að við séum langt á eftir í þessum efnum.“

Í kjölfar ráðstefnunnar gáfu umboðsmenn barna á Norðurlöndum út sameiginlega ályktun um tannheilbrigðismál. Í ályktuninni er meðal annars vísað til þess hversu mikilvægt það sé að tannlæknar taki virkan þátt í  koma í veg fyrir og greina vanrækslu og ofbeldi á börnum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert