Hver veit nema ESB-umsókn frá Íslandi örvi Norðmenn

Olli Rehn.
Olli Rehn. Reuters

Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði í ræðu sem hann flutti á mánudag í Hässleholm í Svíþjóð að von geti verið á aðildarumsókn frá Íslandi í júní eða júlí. Og hugsanlega gæti aðild Íslands að ESB virkað örvandi á Norðmenn.

Rehn, sem er Finni, sagði, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði búið sig undir að taka við umsókn frá Íslandi í sumar og vinna með Svíum, sem taka við formennsku í ESB 1. júlí, að meðferð hennar.

„Ísland er með afar sterka lýðræðishefð og er þegar aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Og ef við líkjum aðildarviðræðum við maraþonhlaup þá hefur Ísland þegar lokið fyrstu 40 kílómetrunum. Samningaviðræðurnar ættu því ekki að taka skelfilega langan tíma ef íslenska þjóðin og Alþingi ákveða að sækja um aðild," sagði Rehn.

„Og hver veit, kannski mun það með tímanum örva Norðmenn einnig," bætti hann við.

Rehn sagðist vera þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé að norræna samfélagið sé innan Evrópusambandsins. Það sé hins vegar ákvörðun Norðmanna hvort og þá hvenær stíga eigi það skref. 

„Í dag er Evrópa sameinuðu og frjáls. Þannig viljum við halda henni. Við munum ljúka verki okkar í suðaustur Evrópu og einnig í norðurhlutanum með Íslandi og - hver veit - einn daginn hugsanlega einnig með Noregi," sagði Olli Rehn.

Ræða Olli Rehns

mbl.is

Bloggað um fréttina