Sykurskattur fyrir lýðheilsu

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra mbl.is/Kristinn

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir lýðheilsusjónarmið liggja að baki hugmyndum um sykurskatt. Hann ræddi málið lauslega á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

„Ég gerði grein fyrir afstöðu minni og ráðuneytisins,“ sagði Ögmundur, „til þess að snúast til varnar fyrir börn og unglinga.“ Það segir hann m.a. verða gert með neyslustýringu, þannig að „við verðstýrum ekki óhollustunni ofan í fólk“, eins og hann orðaði það, „heldur gerum hið gagnstæða. Þetta er sett fram af heilsufarsástæðum og í fullu samræmi við óskir Lýðheilsustöðvar.“

Ögmundur kveðst hafa fengið mikinn hljómgrunn úti í þjóðfélaginu við hugmyndir um sykurskatt. Ögmundur kynnti hugmyndir sínar á ríkisstjórnarfundi í morgun. „Síðan á eftir að taka þá umræðu nánar hvað sjálfan skattinn áhrærir,“ sagði  Ögmundur.   

Ingibjörg Sara Benediktsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, tekur jákvætt í hugmyndir Ögmundar um sykurskatt. „Já, veistu, ég er ekki frá því, við erum náttúrlega með heimsmet í gosdrykkjaneyslu,“ segir hún.

Ingibjörg Sara segir sykurinn í sætum gosdrykkjum skemma tennurnar en í sykurlausum drykkjum sé rotvarnarefni og sýra sem eyði glerungi. „Sykurlausa gosið veldur alveg jafnmiklum glerungsskemmdum sem er stórt vandamál hjá íslenskum unglingum," segir hún en hnykkir á að tannskemmdirnar sjálfar myndist bara vegna sykurs. Hún kveðst hlynnt því að allt gos verði skattlagt frekar.

Hvítar tennur
Hvítar tennur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert