Hljótum að vinna saman að endurreisn

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, að á þessum tímum hljóti það að vera krafa þjóðarinnar, að þingmenn reyni að vinna saman sem ein heild og virða skoðanir hvers annars. 

„Við hljótum að leggja alla okkar krafta í að þjóna fólkinu og vinna saman að endurreisn samfélagsins. Við megum ekki láta hagsmuni fárra víkja fyrir hagsmunum margra. Ég trúi því, að á tímum sem þessum lánist okkur að taka höndum saman um breytta forgangsröðun og breytt grundvallargildi," sagði Jóhanna. 

Hún sagði, að í fyrsta sinn í sögu Íslands séu jafnaðarmenn stærsti flokkur landsins, líkt og jafnaðarmannaflokkar hafi verið á öðrum Norðurlöndum í áratugi og jafnvel aldir. Og í fyrsta sinn í Íslandssögunni séu jafnaðarmenn og félagshyggjufólk með meirihluta hér á Alþingi.

„Þjóðin hefur  því forgangsraðað og það val meirihluta þjóðarinnar á að endurspeglast í þeim störfum sem framundan eru, hvernig við nálgumst viðfangsefnin og hvernig við tökum afstöðu til þeirra. Ég er sannfærð um að þessi breytta forgangsröðun mun hafa áhrif á stefnu og störf allra stjórnmálaflokka á næstu árum. Hún hlýtur að hafa slík áhrif. Gamaldags skotgrafahernaður, sem of lengi hefur einkennt íslensk stjórnmál, á ekki við á einum örlagaríkustu tímum í sögu þjóðar okkar.

Jóhanna sagði, að væri kallað eftir þjóðarsamstöðu og þ nýjum vinnubrögðum. Það væri kallað eftir gagnsæi, aukinni aðkomu almennings að ákvarðanatöku og lýðræðislegum vinnubrögðum í hvívetna.

„Eftir áratuga reynslu af störfum Alþingis er það von mín, að okkur takist nú á þessu kjörtímabili að móta ný vinnubrögð og nýjar hefðir, þar sem hvert mál fær málefnalega og efnislega umræðu og lýðræðisleg málalok. Það er von mín, að við náum að þróa breytt verklag í stað þess að mynda gamaldags blokkir sem þjóna kjósendum að litlu leyti þegar upp er staðið," sagði Jóhanna Sigurðarsdóttir.

Stefnuræða forsætisráðherra  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert