Matarverð hefur hækkað um 25%

Matvöruverð hefur hækkað um rúman fjórðung síðustu 12 mánuði. Þetta kemur fram þegar skoðuð er breyting á verði vörukörfu ASÍ frá maí í fyrra.

Verðið hefur  hækkað mest hjá lágvöruverslununum eða frá 20%-31%, í klukkuverslunum er hækkunin 20%-28% og þjónustuverslanir hafa hækkað verðin frá 12%-21%.

Af þeim tíu verslunarkeðjum þar sem verð vörukörfunnar er mælt hefur verðið hækkað mest í Kaskó, um 31% frá því í maí 2008 og um 26% í Nettó. Í Bónus hefur karfan hækkað um 25% og í Krónunni um 20%.

Í klukkubúðunum hefur verð körfunnar hækkað mest í Samkaupum-Strax eða um 28% frá því fyrir ári síðan. Í 11-11 nemur hækkunin 23% og í 10-11 hefur vörukarfan hækkað um 20%.

Í þjónustubúðunum hefur karfan hækkað mest í Samkaupum-Úrval um 21% en minnstar hækkanir á vörukörfunni á tímabilinu eru hjá Hagkaupum 12% og 15% í Nóatúni.

Umfjöllun ASÍ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert