Deilt um tónlistarhús á Alþingi

Þingmenn deila um hvort halda eigi áfram með framkvæmdir við …
Þingmenn deila um hvort halda eigi áfram með framkvæmdir við tónlistarhúsið við Austurhöfn í Reykjavík. mbl.is/Júlíus

Deilt var um það á Alþingi í dag hvort halda ætti áfram með byggingu tónlistarhússins. Þingmenn Samfylkingarinnar voru ekki sammála. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson töldu að skoða ætti möguleika á að stöðva framkvæmdir, frekar ætti að hugsa um fólk en fasteignir við núverandi aðstæður. Steinunn Valdís Óskarsdóttir var ekki sammála og taldi það „algjört glapræði“ að slá framkvæmdinni á frest.

Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, hóf umræðuna með því að spyrja um afstöðu nýs formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, þingmanni Samfylkingar, til byggingar tónlistarhússins. Gagnrýndi Pétur einnig að útgjalda ríkisins vegna hússins væri ekki getið á fjárlögum. Gríðarlegur kostnaður væri við húsið, um 25 milljarðar, á sama tíma og væri verið að skera niður framlög til almannaþjónustu. Sagði Pétur tónlistarhúsið vera minnisvarða um bruðl og óráðsíu og stöðva ætti framkvæmdir nú þegar og loka húsinu.

Guðbjartur benti á að framlaga ríkis og borgar væri getið í viljayfirlýsingu sem menntamálaráðherra og borgarstjóri skrifuðu undir í febrúar sl. Hins vegar væri það ekki eðlilegt að fjárhagslegra skuldbindinga ríkisins væri ekki getið í fjárlögum og vonandi yrði það gert í fjáraukalögum eða fjárlögum fyrir árið 2010. Sagði Guðbjartur endanlega samninga um tónlistarhúsið heldur ekki komna fram, en ríkið væri að skuldbinda sig um 436 milljónir króna til næstu 35 ára.

Þurfum að staldra við

Þórunn Sveinbjarnardóttir, fv. umhverfisráðherra, sagði 436 milljónir til 35 ára vera gríðarháa upphæð. Hún hefði sjálf spurt sig þeirrar spurningar hvort Íslendingar hefðu efni á að byggja tónlistarhúsið við núverandi aðstæður. Ekki væri enn farið að tala um reksturinn á húsinu, þegar framkvæmdum ætti að ljúka. „Þingheimur, borgin og í raun þjóðin öll þurfa að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að staldra við, endurskoða áætlanir um húsið eða fresta þeim um tíma. Þetta er ekki auðveld ákvörðun og verður ekki sársaukalaus, en við þurfum að endurmeta þetta í ljósi erfiðra ákvarðana sem bíða okkar á næstu vikum og mánuðum,“ sagði Þórunn.

Sigmundur Ernir Rúnarsson tók undir með flokkssystur sinni, sagði að frekar ætti að hugsa um hag fólks en fasteigna. Fagnaði hann fyrirspurn Péturs H. Blöndal.  Endurskoða þyrfti málið með opnum huga, við gerð nýrra fjárlaga yrði að hafa fólk í fyrirrúmi en ekki fasteignir.

Steinunn Valdís Óskardóttir, Samfylkingunni, sté þá í pontu og lýsti sig ósammála Þórunni og Sigmundi. Búið væri að verja miklum fjármunum til framkvæmdarinnar og panta inn margs konar búnað. Miklu skipti fyrir atvinnustigið í landinu að halda verkinu áfram, nú þegar atvinnuleysi færi stigvaxandi í þeim greinum sem kæmu að byggingu hússins. Taldi Steinunn það glapræði að slá framkvæmdinni á frest, mun dýrara yrði fyrir þjóðarbúið að fresta byggingu hússins en halda henni áfram.

mbl.is