Boða til fundar á Austurvelli

Frá mótmælunum á Austurvelli fyrr á þessu ári.
Frá mótmælunum á Austurvelli fyrr á þessu ári. Ómar Óskarsson

Hagsmunasamtök heimilanna hafa boðað til samstöðufundar á Austurvelli  á laugardag kl. 15.00. Þetta er gert vegna þess "neyðarástands sem ríkir á Íslandi" eins og segir í fundarboði.

"Við teljum að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ákveðið að grípa til séu því miður hvergi nærri fullnægjandi.  Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins munu 28.500 fjölskyldur á Íslandi (um 30%), skulda meira en þær eiga í árslok 2009.  Árið 2007 var um að ræða 7.500 fjölskyldur.  Þetta er 380% aukning."

Í fundarboði er sett fram krafa um að gengis- og verðtryggð lán verði leiðrétt með almennum aðgerðum,  að áhætta milli lánveitenda og lántakenda verði jöfnuð, verðtrygging verði afnumin, að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði og um samfélagslega ábyrgð lánveitenda.

Ræðumenn verða Bjarki Steingrímsson, varaformaður V.R, Guðrún Dadda Ásmundardóttir, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, Ólafur Garðarsson, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarstjórnarfulltrúi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert