Samstöðufundur á Austurvelli

Austurvöllur.
Austurvöllur. mbl.is/Þorkell

Hagsmunasamtök heimilanna boða til samstöðufundar á Austurvelli á laugardaginn klukkann 15.00 til að minna á það „neyðarástand“ sem nú sé uppi í íslensku þjóðfélagi. Popphljómsveitin Egó hyggst troða upp.

Samtökin telja þær aðgerðir sem stjórnvöld hafi ákveðið að grípa til „því miður hvergi nærri fullnægjandi“.

Í tilkynningu frá samtökunum segir:

„Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins munu 28.500 fjölskyldur á Íslandi (um 30%), skulda meira en þær eiga í árslok 2009. Árið 2007 var um að ræða 7.500 fjölskyldur. Þetta er 380% aukning.

Umrædd neikvæð eiginfjárstaða er fyrst og fremst til komin vegna höfuðstólshækkana gengis- og verðtryggðra lána. Lánin hafa rokið upp úr öllu valdi í kjölfar verðbólguskotsins sem orsakaðist af gengishruni krónunnar. Við höfnum því alfarið að almenningur verði látinn sæta ábyrgð á efnahagshruninu með þessum hætti.“

Ræðumenn á laugardag verða þau Bjarki Steingrímsson, varaformaður V.R., Guðrún Dadda Ásmundardóttir, meðlimur í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, Ólafur Garðarsson, sem einnig á sæti í stjórn samtakanna, og Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarstjórnarfulltrúi.

Meðal baráttumála samtakanna eru að gengis- og verðtryggð lán verði leiðrétt með almennum aðgerðum, að áhætta milli lánveitenda og lántakenda verði jöfnuð, að verðtrygging verði afnumin, að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði og að hugað verði að samfélagslegri ábyrgð lánveitenda.

Sigrún Elsa Smáradóttir verður á meðal ræðumanna.
Sigrún Elsa Smáradóttir verður á meðal ræðumanna. mbl.is
Bubbi Morthens og hljómsveitin Egó mun koma fram á Austurvelli.
Bubbi Morthens og hljómsveitin Egó mun koma fram á Austurvelli. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert