Festa gengið í 160 - 170

Frá fundarhöldum í Karphúsinu vegna viðræðna um efnahagsmál.
Frá fundarhöldum í Karphúsinu vegna viðræðna um efnahagsmál. Eggert Jóhannesson

Á fundum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, og undirnefnda þeirra, um svonefndan stöðugleikasáttmála hefur verið um það rætt að festa gengi krónunnar miðað við gengisvísitöluna 160 til 170, samkvæmt heimildum mbl.is.

Er meðal annars horft til þess að fastgengisstefnan gæti auðveldað heimilum og fyrirtækjum að takast á við vandamál sem fylgt hafa gengisfalli krónunnar síðastliðið ár. Gengisvísitalan er nú 230. Miðað við hana kostar evran 177 en miðað við vísitöluna 160 til 170 myndi evran kosta um 125 krónur. Þetta myndi létta á skuldabyrði þeirra sem skulda í erlendri mynt og auðvelda nýju bönkunum að bregðast við gengisáhættu sem er á milli eigna þeirra og skulda. 

Undirnefndir aðila vinnumarkaðarins, þ.e. atvinnulífsins og verkalýðsforystunnar, og stjórnvalda hafa að undanförnu kallað til sín sérfræðinga og fyrirtækjastjórnendur til þess að ræða það sem framundan er í íslensku efnahagslífi. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa forystumenn í iðngreinum, þar á meðal Samtökum iðnaðarins, dregið upp dökka mynd af verkefnastöðu á næstu misserum og þá sérstaklega frá haustmánuðum. Þetta hefur valdið mönnum áhyggjum og er ríkur vilji til þess að bregðast við með aðgerðum, ef svigrúm verður til þess.

Þá hefur komið fram hjá fulltrúum Seðlabanka Íslands að nauðsynlegt sé að hraða vinnu við aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum, samkvæmt heimildum mbl.is. Það sé forsenda þess að mögulegt verði að lækka vexti frekar til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Stýrivextir eru nú 13 prósent.

mbl.is