Þjónustutilskipun ESB samþykkt með fyrirvörum

Evrópusambandið, höfuðstöðvar, Brussel.
Evrópusambandið, höfuðstöðvar, Brussel. AP

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun að innleiða þjónustutilskipun Evrópusambandsins en skýr fyrirvari var settur við um að Íslendingar afsali sér ekki lýðræðislegu valdi yfir almannaþjónustunni í afgreiðslu ríkisstjórnar og er hann efnislega samhljóð fyrirvara sem Norðmenn gerðu.

Tilskipunin, sem nær til allrar þjónustu, er hugsuð til þess að auka frelsi innan EES á öllum sviðum þjónustu, meðal annars til þess að auðvelda þjóðum að nýta sóknarfæri sín og þar með auka samkeppnishæfni.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra taldi afar brýnt að setja skýran fyrirvara í tengslum við samþykkt þjónustutilskipunarinnar, fyrirvara sem snýr sérstaklega að heilbrigðisþjónustunni og almannaþjónustu almennt.

Ennfremur telur heilbrigðisráðherra brýnt að við innleiðingu tilskipunarinnar hafi það ráðuneyti sem stýri innleiðingarferlinu hliðsjón af þessum áherslum ríkisstjórnarinnar og að tilskipunin verði því innleidd með þeim hætti sem skapi mest svigrúm íslenskra stjórnvalda til að hafa bein áhrif á ákvarðanir í málum sem ráðherra telur vera grundvöll velferðarþjónustunnar í landinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Ögmundur segir að það hafi því miður vilja brenna við í tímans rás, að tilskipanir frá Brussel væru samþykktar í ríkisstjórn án fyrirvara og, að því er honum hefur stundum virst, jafnvel án athugunar og ígrundunar.

„Nú hefur verið innleitt nýtt vinnulag hvað þetta varðar og er það stórt skref fram á við. Hvað þjónustutilskipunina varðar þá hef ég komið að henni í langan tíma á vettvangi evrópskrar verkalýðshreyfingar. Þar tókst að koma fram lagfæringum frá upphaflegu útgáfunni.

Með fyrirvara Íslands á að vera girt fyrir ágang markaðsaflanna að heilbrigðisþjónustunni. Þess vegna stend ég ekki lengur  í vegi fyrir innleiðingu hennar enda hefði slíkt í för með sér að þjónustusamningar við öll EES ríkin væru í uppnámi samkvæmt túlkun á EES samkomulaginu,” segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.  

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert