Umskiptingar á þingi

Þingmenn kröfðust svara á Alþingi í dag vegna þeirra ummæla sænska sérfræðingsins Mats Josefsson í sænskum fjölmiðli, að endurreisn bankakerfisins yrðu miklu dýrari en Íslendingar gerðu sér grein fyrir, ekki 385 milljarðar eins og gert er ráð fyrir á fjárlögum heldur  85 prósent af vergri landsframleiðslu eða tólf hundruð og fimmtíu milljarðar

Álfheiður Ingadóttir formaður viðskiptanefndar  sagði að það væri alls gert ráð fyrir um 585 milljörðum til að endurfjármagna bankana, Seðlabankann og Sparisjóðina á fjárlögum eða fimmtíu til sextíu prósent af vergri landsframleiðslu. Hún sagðist telja að Mats Josefson  væri að tala um brúttóskuldir. Þær myndu lækka aftur þegar bankarnir yrðu seldir.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi harðlega að fundi í viðskiptanefnd hefði verið frestað í síðustu viku og taldi brýnt að ræða þar endurreisn bankanna.  Bæði Guðlaugur Þór Þórðarson og Birkir Jón Jónsson töldu að þingið væri niðurlægt og þingmenn kæmu að yfirleitt að orðnum hlut og fengju upplýsingar annars staðar en í þinginu. Framkvæmdavaldið fengi umboð sitt frá Alþingi og gera þyrfti ráðherrum grein fyrir því.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði að formaður Viðskiptanefndar hefði augljóslega ekki hugmynd um málið en það hvarflaði ekki að henni að halda fund.  Sami meirihluti og talaði um gagnsæi og opna stjórnarhætti hefði séð ástæðu til að fresta föstum nefndarfundi. Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins sagði að svo virtist sem þingmönnum Vinstri grænna hefði verið skipt út. Þetta væri nýtt fólk, umskiptingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina