Biðu í 30-40 mínútur eftir lögreglu

mbl.is/Kristinn

Allt að 30-40 mínútur liðu frá því tilkynnt var um líkamsárás á aldraðan mann, innbrot og rán við Barðaströnd á Seltjarnarnesi í fyrrakvöld þar til lögreglan kom.   

„Hann hringdi fyrst í okkur. Þá fór ég af stað og konan mín hringdi á lögregluna,“ sagði sonur mannsins. Hann telur föður sinn hafa hringt í sig rétt fyrir kl. 20.30. Þá hafði hann verið í 20-30 mínútur að losa sig úr böndum ræningjanna. Sonurinn flýtti sér á staðinn.  

„Svo kom enginn og þá hringdi ég. Það kom enginn og aftur hringdi ég og enn kom enginn og enn hringdi ég.“ Sonurinn kvaðst hafa lýst því vandlega hvað eftir annað fyrir þeim sem svöruðu neyðarsímanum hvað hafði komið fyrir föður hans. Loks komu tveir lögreglumenn á mótorhjólum, líklega klukkan rétt rúmlega 21. 

Um leið og mótorhjólalögreglumennirnir vissu af alvöru málsins kölluðu þeir eftir aðstoð. Fljótlega kom tæknideild og rannsóknardeild. „Öll vinnubrögð þeirra voru til fyrirmyndar. Þeir voru að leita að fingraförum fram eftir nóttu,“ sagði sonurinn.

Hann kvaðst hafa kvartað yfir þessum seinagangi við lögregluna. Þá hefði verið minnst á manninn sem braust inn í Kaupþing banka í Austurstræti um sama leyti.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu (LRH) hefur beðið fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um greinargerð vegna útkallsins í innbrotsmálið. Vonast er eftir niðurstöðu í dag. Fjarskiptamiðstöðin tekur við beiðnum frá Neyðarlínunni um lögregluaðstoð og sendir svo beiðni til lögreglu í viðeigandi umdæmi um aðstoð. Starfsmenn fjarskiptamiðstöðvarinnar meta hve áríðandi útkallið er.

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá LRH, sagði að svo virtist sem eitthvað hefði farið úrskeiðis við boðun útkallsins á Seltjarnarnes og það ekki fengið þann forgang sem því bar. Hann sagði að LRH ætti að ráða vel við tvö alvarleg útköll á sama tíma. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert