Óskiljanlegt og illa undirbúið

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega þingsályktunartillögu, sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra mælti fyrir á Alþingi í morgun um að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu.

Sagði Bjarni að þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar væri með ólíkindum vegna þess hve kastað hafi verið til höndunum við gerð hennar. Samkvæmt tillögunni væri gert ráð fyrir að Alþingi veitti utanríkisráðherra umboð til að hlaupa af stað með málið og síðan verði skilgreind hvaða markmið séu sett í viðræðum.

Þá sagði Bjarni það óskiljanlegt, að í tillögunni segi að málsaðilar áskilji sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggi fyrir.  Sagðist Bjarni ekki skilja hvaða málsaðila væri átt við og spurði hvort  utanríkisráðherra ætli að leiða til lykta samningaviðræður við Evrópusambandið og staðfesta niðurstöðuna með undirskrift sinni en áskilji sér síðan rétt til að berjast gegn samningnum þegar til Íslands sé komið.

Bjarni sagði, að með því að leggja fram eigin þingsályktunartillögu væru stjórnarandstöðuflokkarnir að leiðbeina ríkisstjórninni um hvernig mögulega væri hægt að búa málið þannig, að hægt sé að taka afstöðu til þess á  Alþingi.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert