Viðræðurnar hanga á bláþræði

Viðræður stóðu yfir í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara.
Viðræður stóðu yfir í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ segir að viðræður aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála hafi hangið algerlega á bláþræði í dag. Stærsta ágreiningsefnið er um frestun launahækkana. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins þrýsta á frestun helmings áformaðra launahækkana 1. júlí, fram í nóvember og frestun almennra launahækkana um næstu áramóti fram í september árið 2010.

„Við tókumst á um þetta í dag og það er alveg ljóst að við erum ekki að ná saman um þetta. SA er ekki tilbúið að hreyfa sig meira,“ segir Gylfi. „Við sögðum þeim strax í síðustu viku að afskaplega lítill áhugi væri fyrir því í okkar baklandi. Það væri mjög skýr krafa um að þetta kæmi til framkvæmda núna 1. júlí. Atvinnurekendur einfaldlega tilkynna okkur í dag að þeir muni þá ekki óska eftir framlengingu þessara samninga. Málið hefur því hangið algerlega á bláþræði að þessu leyti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina