Þunguð kona ofurölvi í miðbænum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nótt afskipti af ofurölvi konu í miðborg Reykjavíkur en það vakti athygli lögreglumanna að konan, sem gat varla gengið sökum ölvunar, var þunguð.

Lögreglan hefur eftir konunni, að hún sé komin um 7 mánuði á leið. Hún var flutt í læknisskoðun og síðan til síns heima þar sem rætt var við aðstandendur. Barnaverndaryfirvöldum verður tilkynnt um málið.

Lögreglan segir, að um 140 verkefni hafi verið skráð í nótt og sé það í meðallagi. Talsverð ölvun var í miðborginni að venju en fáar líkamsárásir tilkynntar að þessu sinni.

Ein líkamsárás var þó tilkynnt á skemmtistað í höfuðborginni. Þar lenti sambúðarpar í rifrildi sem lauk með því að maðurinn sló konuna og hún féll í götuna. Konan var flutt í sjúkrabíl á slysadeild en manninum sleppt eftir viðræður við lögreglu, sem segir að þau hafi bæði verið mjög ölvuð.

Þá var í nótt tilkynnt um bíl, sem skilinn hafði verið eftir í Þingholtunum og var mikið skemmdur að framan. Reyndist bílnum hafa verið stolið. Enginn ökumaður fannst.

 
mbl.is