Fjórðungur kjósenda tók ákvörðun á kjördag

Margir kjósendur gerðu ekki upp hug sinn í apríl fyrr …
Margir kjósendur gerðu ekki upp hug sinn í apríl fyrr en inni í kjörklefanum. Reuters

Um 38% svarenda í Þjóðarpúlsi Gallup gerðu upp hug sinn meira en mánuði fyrir alþingiskosningar í apríl. Segir Gallup, að það er töluvert lægra hlutfall en fyrir síðustu kosningar 2007 en þá höfðu 57% gert upp hug sinn meira en mánuði áður en gengið var til kosninga.

Að sama skapi gerðu fleiri upp hug sinn á kosningadaginn eða í kjörklefanum nú en 2007. Rúmlega fjórðungur kjósenda gerði upp hug sinn á kosningadaginn sjálfan þar af um 13% inni í kjörklefanum.

Líkt og áður gera karlar fyrr upp hug sinn en konur þegar líður að kosningum, en 41% þeirra er búið að ákveða sig meira en mánuði fyrir kosningar á móti 35% kvenna. Jafnframt ákveða 29% kvenna sig ekki fyrr en á kjördegi samanborið við 23% karla.

Helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins annars vegar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hins vegar var ákveðinn í afstöðu sinni meira en mánuði fyrir kosningar. Tæplega helmingur kjósenda Borgarahreyfingarinnar gerði aftur á móti upp hug sinn á kjördag þar af helmingur inni í kjörklefanum. Að sama skapi ákváðu 34% kjósenda Framsóknarflokksins sig ekki fyrr en á kjördegi.

Meirihluti þeirra sem kusu sama flokk nú og í síðustu kosningum var búinn að gera upp hug sinn meira en mánuði fyrir kosningar. Tryggð kjósenda við stjórnmálaflokk er mest meðal kjósenda Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs en 69% þeirra sem kusu flokkinn í síðustu kosningum, kaus  hann innig nú. Tryggðin er minnst hjá Sjálfstæðisflokknum en tæplega 55% þeirra sem kusu flokkinn 2007 gerðu það aftur nú.

Gallup segir, að af niðurstöðunum að dæma hafi Sjálfstæðisflokkurinn tapað mestu fylgi til Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina