Icesave-samningur gerður

Ríkisstjórnin hefur staðfest, að náðst hafi samkomulag í deilu Íslendinga við Hollendinga og Breta um Icesave-reikninga Landsbankans. Segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, að ríkisstjórnin hafi í gær samþykkt að samninganefnd um Icesave myndi undirrita samninginn.

„Samkomulagið er mikilvægur áfangi í endurreisn íslensks efnahags. Breska fjármálaráðuneytið hefur þegar beint þeim tilmælum að aflétta frystingu á eignum Landsbankans í Bretlandi og mun það gerast strax 15. júní næstkomandi.

Samkvæmt samkomulaginu verða eignir Landsbankans notaðar til greiðslu á skuldbindingum vegna Icesave. Íslenska ríkið mun engar greiðslur þurfa að inna af hendi vegna Icesave næstu sjö árin. Árið 2016 mun Tryggingasjóður innstæðueigenda gefa út skuldabréf sem ríkissjóður ábyrgist og er líftími þess 8 ár. Eignir Landsbankans munu ganga til þess að borga það bréf niður. Í framhaldinu verður málið kynnt almenningi og frumvarp lagt fram á Alþingi um ríkisábyrgð vegna þessa samkomulags," segir í tilkynningunni.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, munu síðar í dag halda blaðamannafund þar sem
nánar verður greint frá samkomulaginu.

mbl.is