Öll óvissa á kostnað Íslendinga

Bjarni Benediktsson segir áhættuna vegna Icesave alla Íslands megin.
Bjarni Benediktsson segir áhættuna vegna Icesave alla Íslands megin. Ómar Óskarsson

„Ég er á engan hátt ánægður með þetta samkomulag þrátt fyrir að ég geri mér grein fyrir því að stjórnvöld eru í talsvert þröngri stöðu," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins um samninginn sem gerður hefur verið vegna Icesave deilunnar.

„Ríkið er að taka yfir þessar skuldbindingar og öll óvissa sem er um virði þeirra eigna sem við höfum til ráðstöfunar upp í skuldina er á kostnað Íslendinga."

En var ekki ákveðið í haust að við myndum taka yfir þessar skuldbindingar?

„Það hefur alltaf verið leiðarljós í þessum viðræðum að það væri skynsamlegt að reyna að leita pólitískrar lausnar. Það var alveg skýrt við meðferð málsins í þinginu að til þess að við gætum fallist á einhverja niðurstöðu í þeim viðræðum þyrfti að taka ríkt tillit til aðstæðna á Íslandi. Það gera menn með því að hafa endurgreiðslutímann mjög langan, með því að hafa vextina einstaklega lága og með því að tryggja að óvissuþættir eins og framvinda um virði eignanna lendi ekki allir hjá öðrum samningsaðilanum."

Hann segir einnig hættulegt að árleg greiðslubyrði Íslendinga vegna skuldbindinganna geti farið fram úr því sem þeir ráða við. „Maður hefði því viljað sjá þak á mögulega greiðslubyrði okkar á ári. Eins hefði maður viljað fá samningsaðila okkar til að taka við eignunum sem greiðslu fyrir skuldbindingunni svo óvissu um hvað framtíðina varðar væri eytt. En það er ákveðið að halda óvissunni inni og öll neikvæð þróun mun verða á okkar kostnað."

Bjarni segir það einungis gálgafrest að samkomulagið geri ráð fyrir að ekki þurfi að byrja að greiða af láninu fyrr en eftir sjö ár. „Á meðan hlaðast vextirnir upp á skuldbindingunni," segir hann. „Og það er rangt að segja að það séu engar greiðslur vegna þess að allar eignir Landsbankans standa til tryggingar greiðslunum fyrstu sjö árin, allar eignir Landsbankans sem losna og eru til útgreiðslu verða notaðar á þessu sjö ára tímabili."

Þá bendir hann á að talsverður munur sé á vöxtunum sem skuldbindingar ríkisins bera og meðaltalsvöxtum á lánasafni Landsbankans. „Jafnvel þótt eignir Landsbankans standi að fullu undir skuldbindingunum þá mun mikil skuldbinding lenda engu að síður á íslenska ríkinu vegna þess að við erum að samþykkja að borga hærri vexti en þetta eignasafn ber. það er ekki með nema rúma 3% vexti að meðaltali meðan við erum að samþykkja að taka 5,55% vexti."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert