Lögin eigi víst við um Kópavog

Deloitte er til húsa í turninum við Smáratorg í Kópavogi.
Deloitte er til húsa í turninum við Smáratorg í Kópavogi. Ragnar Axelssson

„Þessi lög eiga við um Kópavogsbæ eins og önnur sveitarfélög,“ segir Knútur Þórhallsson, endurskoðandi og höfundur skýrslu Deloitte um viðskipti Kópavogsbæjar við fyrirtækið Frjálsa miðlun, sem er í eigu dóttur Gunnars Birgissonar bæjarstjóra. Á hann þar við lög um opinber innkaup, sem Gunnar segir að eigi ekki við í málinu.

Deloitte sendi í morgun frá sér þriggja blaðsíðna viðauka við skýrsluna, í kjölfarið á gagnrýni Gunnars á hana. Gagnrýndi Gunnar hana í fimm tölusettum liðum í Morgunblaðinu í dag.

Lögin skiptast meðal annars í annan þátt og þriðja þátt. Í skýrslu Deloitte var fjallað um viðmiðunarupphæðir Evrópska efnahagssvæðisins í 2. þætti laganna, um það hvenær viðskipti opinberra aðila við fyrirtæki eru útboðsskyld. Þar er talað um 10 milljónir króna á fjórum árum sem viðmið.

Í viðaukanum taka þeir Knútur og Barði Ingvaldsson endurskoðandi fram að betra hefði verið að miða við upphæðir í 3. þætti laganna. Þar er þessi upphæð á bilinu 16-21 milljón króna, eftir því hvaða ár á við. Upphæðin sem Kópavogsbær skipti við Frjálsa miðlun var hins vegar um 39 milljónir króna og því yfir viðmiðunarmörkunum alveg óháð því í hvaða þáttur laganna um opinber innkaup á við.

„Einnig vísar þriðji þáttur laganna til annars þáttar. Það er því einföldun að segja að annar þáttur þeirra eigi ekki við um sveitarfélög. Þessi lög í heild sinni eiga við um sveitarfélög,“ segir Knútur í samtali við mbl.is

Svarar öðrum aðfinnslum bæjarstjórans

Þá svarar hann grein Gunnars Birgissonar í Morgunblaðinu í dag á ýmsan hátt. Segir hann að Gunnar leiki sér að orðum, þegar hann segi fullyrt í skýrslunni að lög hafi hugsanlega verið brotin. Þvert á móti hafi ekkert verið fullyrt í skýrslunni um það, heldur sagt að lögbrot hafi mögulega átt sér stað.

Þá gagnrýndi Gunnar skýrsluna fyrir að hvorki formaður afmælisnefndar bæjarins né starfsmenn nefndarinnar hafi verið boðaðir á fund Deloitte til viðtals. Segir Knútur að skýrslan hafi verið unnin eftir gögnum sem fyrirtækinu voru afhent frá Kópavogsbæ og ekki hafi verið beðið sérstaklega um nein viðtöl við málsaðila. Samkvæmt venju í svona verkum sé ekki farið út í slík viðtöl nema beðið sé um það. Þá hafi verið tekið fram að skýrslan hafi verið unnin á mjög skömmum tíma.

Að lokum hafnar hann því sem Gunnar segir í grein sinni að fullyrt hafi verið í skyrslunni að Kópavogsbær hafi verið stærsti viðskiptavinur Frjálsrar miðlunar. Þvert á móti hafi sagt á blaðsíðu átta í skýrslunni að lausleg skoðun bendi til þess. Enn og aftur hafi skýrslan einfaldlega verið byggð á þeim gögnum sem Deloitte voru afhent af Kópavogsbæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert