Telur að Joly starfi hér áfram

Eva Joly og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Eva Joly og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra telur að Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara, muni starfa áfram fyrir embættið við rannsókn á hugsanlegum afbrotum í aðdraganda bankahrunsins.  Þær funduðu í dag ásamt Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara. „Hún verður auðvitað sjálf að svara til um sína aðkomu, eða Ólafur Þór, en ég get ekki metið samtal okkar á aðra lund en þá að hún muni vinna áfram að rannsókninni,“ sagði Ragna í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Ragna tekur reyndar fram að það hafi ekki sérstaklega borið á góma á fundinum hvort Joly ynni áfram fyrir embætti sérstaks saksóknara, hún væri ráðin hjá því embætti og þyrfti því ekki að svara ráðuneytinu um störf sín. Sitt mat sé þó það að hún starfi áfram.

Ráðherra segist hafa óskað eftir fundinum í dag. Gagnrýni Joly í Kastljósinu í gær hafi beinst að stjórnvöldum og hún vilji því  reyna að finna bráða lausn á málinu. Ragna sagðist bjartsýn eftir fundinn í dag.

„Ég óskaði eftir þessum fundi vegna þess að ég hef verið að vinna að ákveðnum lagabreytingum um það að fjölga saksóknurum og um það að unnt verði að setja sérstakan ríkissaksóknara í málefnum hins sérstaka saksóknara.“ Eva Joly hafi síðan í Kastljósinu í gær sagt að hún sæi fyrir sér nokkurs konar norskt módel varðandi fjölgun saksóknara hjá umræddu embætti, „og ég vildi heyra nánar í henni og Ólafi vegna þessa.“

Ragna skýrði Joly frá því að dómsmálaráðherra hefði ekkert um hæfi ríkissaksóknara að segja. Hann væri æðsti handhafi ákæruvaldsins og ákvæði sjálfur eigið hæfi. Ríkissaksóknari væri búinn að segja sig frá hluta síns starfssviðs og lýsa sig vanhæfan í málefnum sem varða hinn sérstaka saksóknara. Joly lýsti þeirri skoðun sinni í gær að það væri ekki nóg; ríkissaksóknari yrði að víkja.

„Við áttum góðan fund, fórum yfir málið og ég bað hana að kynna mér betur hugmyndir sínar um auknar fjárveitingar til embættis sérstaks saksóknara af því að ég ætla að leggja minnisblað um málið fyrir ríkisstjórn í fyrramálið, þar sem ég mun skýra frá þeim hugmyndum að lagabreytingum sem ég hef verið að vinna að,“ sagði Ragna Árnadóttir við Fréttavef Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert