Gera sprengju úr El Grillo óvirka

Mæligögn frá Reson fjölgeisladýptarmæli, sem hafa verið unnin í úrvinnsluforriti, …
Mæligögn frá Reson fjölgeisladýptarmæli, sem hafa verið unnin í úrvinnsluforriti, gefa góða mynd af El Grillo á botni Seyðisfjarðar. mbl.is

Ráðgert er að sprengjudeild Landhelgisgæslu Íslands komi til Seyðisfjarðar á morgun til að gera sprengju sem fannst í El Grillo óvirka. Sprengjan er ein fjölmargra sem fundist hafa í og við skipið. Töluverð hætta getur skapast af slíkum sprengjum.

Árni Kópsson kafari vinnur ásamt fleirum að því að sækja niður í skipið síðasta hluta annarrar fallbyssu El Grillo en ráðgert er að hún verði til sýnis í bænum. Kafararnir rákust á sprengjuna í dag og höfðu þegar í stað samband við Gæsluna. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Árni lætur Gæsluna vita af sprengjum í El Grillo og tekur hann fram að það gerist nánast í hvert skipti sem hann kafar niður að skipinu.

El Grillo var tíu þúsund lesta olíubirgðaskip Bandamanna sem þrjár þýskar flugvélar gerðu sprengjuárás á í síðari heimsstyrjöldinni á Seyðisfirði þann 4. september 1942. Eftir árásina var skipið svo laskað að Bretar ákváðu að sökkva því, þó mikið magn olíu væri enn um borð. Skipið liggur á um 30-40 metra dýpi og er vinsæll áfangastaður sportkafara.

Árið 2004 vann síðan Landhelgisgæslan að því að fjarlægja verulegt magn af skotum og sprengiefni úr flakinu, en á tímabilinu frá 1972-2006 hafa yfir 500 sprengjur verið fjarlægðar úr því.

Árni segir töluverða hættu geta skapast af sprengjum um borð í skipinu enda þurfi ekki endilega mikið til að þær springi, með tilheyrandi áhættu á slysum. Því sé betra að láta sprengjudeild Gæslunnar vita.

Kafarar Gæslunnar munu sjálfir sjá um að sækja sprengjuna og færa á þurrt. Hún verður í kjölfarið gerð óvirk.

Wikipediugrein um El Grillo

20 millimetra skotfæri úr El Grillo.
20 millimetra skotfæri úr El Grillo.
Árni Kópsson kafari virðir fyrir sér flakið á sjávarbotni.
Árni Kópsson kafari virðir fyrir sér flakið á sjávarbotni. Þorkell Þorkelsson
mbl.is