Eitrun í kræklingi úr Eyjafirði

Kræklingur.
Kræklingur.

Lömunareitrun PSP hefur greinst í kræklingi úr Eyjafirði. Í sýnum sem nýlega voru tekin til þörungaeitursgreiningar reyndist magn PSP vera rétt undir viðmiðunarmörkum en magn svonefndra alexandrium þörunga, sem valda eitruninni, eru yfir hættumörkum. Matvælastofnun varar því við sterklega við neyslu og tínslu á kræklingi og öðrum skelfiski úr Eyjafirði.

Fram kemur á heimasíðu Matvælastofnunar segir að þörungaeitursgreining, sem gerð var í síðustu viku, hafi sýnt magn PSP rétt undir viðmiðunarmörkum eða 72 µg/kg en mörkin eru 80 µg/kg. Á sama tíma greindust þörungar af tegundinni alexandrium en þeir valda PSP eitrun.  Skv. talningu var fjöldinn  620 frumur/lítra en hættumörk eru 500 frumur/lítra. Annað sýni var tekið á sunnudag og var þá fjöldi Alexandrium tegunda kominn í 1000 frumur/lítra.

Áhrif PSP-eitrunar á spendýr eru þau að eitrið truflar natríumbúskap taugafruma, sem leiðir af sér truflun á taugaboðum og getur valdið lömun, öndunarerfiðleikum og jafnvel dauða. Þessi gerð þörungaeitrunar hverfur úr skelfiskinum á skömmum tíma eftir að þörungar hafa horfið af hafsvæðinu.

Matvælastofnun segist fylgjast með þróun mála á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert