Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi að enginn hafi  getað sýnt fram á það með neinum rökum, að ákvæði Icesave-samninganna stofni í hættu stöðu Íslendinga, eignum og auðlindum innanlands.

„Slíkt gæti aðeins gerst handan þess, að öryggisákvæði samningsins hefðu ekki náð að leysa vandamálin, handan þess að dómsmál hefði tapast erlendis og handan þess, að íslenska ríkið væri komið á hliðina og nánast  liðið undir lok sem réttarríki," sagði Steingrímur. „Slíkt geymir sagan engin dæmi um."

Hann sagði að ákvæðin í samningunum væru algerlega hliðstæð ákvæðum, sem verði væntanlega í lánasamningum við hin Norðurlöndin. „Halda menn að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum fari að setja slík ákvæði  inn í samning til að geta með krókaleiðum ásælst auðlindir Íslendinga? Nei, þetta er af lagatæknilegum og samningatæknilegum ástæðum," sagði Steingrímur.

Upplýsingagjöf hefði getað verið betri

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, sagði í umræðunum, að allt væri málið þannig vaxið, að það sýni hvernig menn þurfi að læra að vinna í Nýja Íslandi. „Við sjáum að þróun undanfarinna vikna, að við hefðum getað hagað upplýsingagjöf með öðrum hætti.  Nú er mikilvægt, að við veltum við hverjum steini og róum fyrir hverja vík til að kanna þetta mál til hlítar," sagði Árni Páll.

Hann sagði nauðsynlegt að fjallað verði ýtarlega um málið í þingnefnd og kalla þurfi til sérfræðinga til að fjalla um lánakjör og  samningsákvæði til að eyða áhyggjum og greiða úr misskilningi. Helst þurfi umfjöllunin að fara fram fyrir opnum tjöldum. „Ég held að flestum áhyggjum varðandi þennan samning verði svarað með vandaðri umfjöllun í nefnd," sagði Árni Páll. 

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. mbl.is/Frikki
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert