Bresk stjórnvöld verja hryðjuverkalögin

Breska þinghúsið í Lundúnum.
Breska þinghúsið í Lundúnum. Reuters

Breska fjármálaráðuneytið hefur brugðist við skýrslu fjárlaganefndar breska þingsins þar sem viðbrögð breskra stjórnvalda við íslenska fjármálahruninu í október voru gagnrýnd. Segir ráðuneytið, að ekki hafi fengist skýr svör frá íslenskum stjórnvöldum um hvernig Ísland ætlaði að axla skuldbindingar sínar vegna innlánsreikninga íslensku bankanna í Bretlandi.

Breska fjárlaganefndin sendi í apríl frá sér skýrslu þar sem m.a. sagði, að  bresk stjórnvöld hefðu með aðgerðum sínum gripið með beinum hætti inn í fjármálamarkaðinn og hafi þar með hætt að vera hlutlægur áhorfandi. Íslenskum stjórnvöldum hafi ekki þótt hjálp í þessum aðgerðum bresku stjórnarinnar.

„Í tengslum við útibú Landsbankans í Bretlandi, þrátt fyrir yfirlýsingar íslensku ríkisstjórnarinnar um að hún myndi uppfylla skyldur sínar (samkvæmt innistæðutryggingarkerfi framkvæmdanefndar Evrópusambandsins) gagnvart innistæðueigendum í því útibúi, þá tókst bresku ríkisstjórninni ekki að fá skýr svör um hvernig Ísland ætlaði að gera það framkvæmanlegt.

Staða breskra lánardrottna gagnvart skilanefnd Landsbankans var einnig óskýr. Þetta olli miklum áhyggjum þar sem ýmsar yfirlýsingar íslenska forsætisráðherrans bentu til þess, að þótt réttindi íslenskra innistæðueigenda yrði varinn kynni réttur annarra innistæðueigenda og lánardrottna, þar á meðal í Bretlandi, að skerðast - og það væri brot á EES-samningnum. Bresk stjórnvöld gripu til þessara aðgerða í ljósi þessara áhyggna," segir í tilkynningu sem breskir fjölmiðlar vitna til.

Frétt um skýrslu fjárlaganefndarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert