Ekki krafa um þjóðnýtingu lífeyrissjóða

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að hann hefði ekki séð stafkrók um það í neinum plöggum, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri kröfu um þjóðnýtingu lífeyrissjóðanna.

Rætt var um stöðu lífeyrissjóðanna utan dagskrár á Alþingi að ósk Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Hún spurði Steingrím m.a. hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi farið fram á að eignir lífeyrissjóðanna yrðu þjóðnýttar.

„Nei, ekki er mér kunnugt um það. Ég hef aldrei heyrt það nefnt og það hefur aldrei borið á góma í mínum samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ég hef aldrei séð stafkrók um það í neinum plöggum sem snúast um samskipti við hann.

Ég held að það sé því algerlega ástæðulaust að hafa af því áhyggjur. Þvert á móti býður mér svo í grun, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn meti einmitt styrk íslenska lífeyriskerfisins og sérstaklega vænt tekjustreymi ríkis- og sveitarfélaga með vaxandi útgreiðslum séreignarsparnaðar á komandi  árum sem eina okkar styrkustu stoð til að ráða við efnahagsáfallið og skuldirnar sem nú lenda á ríkissjóði og sveitarfélögum," sagði Steingrímur.

mbl.is