Sögðu ríkið ábyrgjast Icesave

Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason þáverandi bankastjórar Landsbankans.
Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason þáverandi bankastjórar Landsbankans. mbl.is/Kristinn

Þáverandi bankastjórar Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, sendu bréf til hollenska seðlabankans (DNB) og Fjármálaeftirlitsins (FME) þann 23. september síðastliðinn þar sem þeir sögðust hafa vissu fyrir því að íslenska ríkið myndi ábyrgjast lágmarksinnstæður í íslenskum bönkum. Morgunblaðið hefur undir höndum eintak af bréfinu sem stílað er á Jónas Fr. Jónsson, fyrrum forstjóra FME.

Bréfið var sent til að bregðast við kröfum DNB um að stöðva innlánasöfnun Landsbankans í gegnum Icesave-reikningana í landinu vegna áhyggna þarlendra stjórnvalda á getu hins íslenska Tryggingasjóðs innstæðueigenda til að standa við lágmarksinnstæðutryggingar og almennum áhyggjum þeirra af stöðu íslensks efnahagslífs.

Samkvæmt samkomlagi sem íslensk stjórnvöld hafa gert við bresk og hollensk stjórnvöld ábyrgjast þau og þar með íslenskir skattgreiðendur um 700 milljarða króna vegna Icesave-innstæðanna. Auk þess eiga bresk og hollensk stjórnvöld rúmlega 600 milljarða króna kröfu á Landsbankann vegna þeirra.

Skuldbindingar staðfestar

Í bréfinu segir að DNB hafi að mjög litlu leyti útskýrt grundvöll þeirra aðgerða sem hann vildi grípa til gagnvart Landsbankanum. DNB hefði vísað til almennra efnahagshorfa á Íslandi, hlutfallslegrar stærðar íslenska bankakerfisins í samræmi við íslenska hagkerfið og þann skilning DNB að hinn íslenski Tryggingasjóður innstæðueigenda gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar ef til þess kæmi að hann þyrfti að gera það.

Bankastjórarnir svara þessum áhyggjum orðrétt þannig að þeir hafi „vitneskju um viðbrögð við kröfu um útskýringar [um stöðu innstæðutrygginganna] frá breska fjármálaráðuneytinu um stuðning stjórnvalda við íslenska innstæðutryggingakerfið, íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér bréf þar sem hlutverk þeirra í fjármögnun íslenska kerfisins er útskýrt og skuldbindingar þeirra í samræmi við ESB-tilskipunina ítrekaðar. Að okkar mati er þetta mikið framfaraspor og ætti að fara langleiðina með að létta á áhyggjum varðandi innstæðutryggingakerfið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert