Tugmilljóna einkaútgjöld á viðskiptamannareikning

Hannes Smárason.
Hannes Smárason.

Persónuleg útgjöld upp á tugi milljóna króna vegna alls frá einkaþotum til bíómiða er meðal þess sem Hannes Smárason virðist hafa fært á viðskiptamannareikning sinn hjá FL Group og annarra félaga honum tengdum. Hannes var áður stjórnarformaður og forstjóri FL Group.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinarerð Ríkislögreglustjóra vegna meintra auðgunar- og skattalagabrota, sem liggur til grundvallar húsleitar þann 3.júní sl. hjá lögmannsþjónustunni LOGOS og á Fjölnisvegi 9 og 11.

Kröfum Hannesar Smárasonar um að húsleitirnar yrðu úrskurðaðar ólögmætar, var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þess var og krafist að ríkislögreglustjóri myndi skila öllum þeim gögnum sem hald hefði verið lagt á, án þess að kynna sér þau, eyða afritum og greiða málskostnað. Þessum kröfum var hafnað með sama úrskurði.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að kaup FL Group á flugfélaginu Sterling, árið 2005, séu talin hafa valdið FL Group verulegu fjárhagslegu tjóni, þar sem flugfélagið kunni að hafa verið keypt á yfirverði. Þá er talinn rökstuddur grunur á ólögmætri og refsiverðri tilfærslu á fjármunum með 46,5 milljóna dala lánveitingu FL Group til Hannesar eða öðrum honum tengdum árið 2005. Vísað er til tölvupósta þessu til staðfestingar og til laga um hlutafélög. 

Við skattrannsókn vegna ársins 2006 kom í ljós hjá FL Group bókunin „Endurrukkun HS" upp á 17,4 milljónir króna. Að baki fjárhæðinni virðast liggja bókanir sem kallast m.a. „flug", „privat vegna US", en sambýliskona Hannesar heitir Unnur Sigurðardóttir, „veiðileiðsögn" og „bíómiðar HS".

Þá hefur efnahagsbrotadeild undir höndum fylgiskjal úr bókhaldi FL Group þar sem Hannes er endurkrafinn um 370 þúsund evrur, eða 33 milljónir króna vegna afnota af einkaflugvél sem FL Group leigði af NetJets. Báðar fjárhæðirnar eru bókaðar á viðskiptamannareikning FI fjárfestinga ehf., félags sem skráð var á Hannes Smárason, sem skuld. Þetta þykir rökstyðja grun um að FI fjárfestingar hafi verið að greiða einkakostnað Hannesar.

Í greinargerðinni er lýst miklum fasteignagjörningum um m.a. Fjölnisveg 9 og 11, sem Hannes og sambýliskona hans eru sögð hafa keypt á undirverði. Þar segir að ætla megi að kaup félagsins á fasteignum hafi ekki verið gerð í ábataskyni heldur sé hugsanlega um málamyndagerning að ræða. Ljós sé að rökstuddur grunur sé um skattsvik. Þá er og fjallað um félögin Hlíðarsmári 6 ehf. og Oddaflug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert