Stöðugleikasáttmála ógnað

Ríkisstjórnin hefur setið á mörgum og löngum fundum með aðilum …
Ríkisstjórnin hefur setið á mörgum og löngum fundum með aðilum vinnumarkaðar að undanförnu. mbl.is/Ómar

Pattstaða er komin upp í viðræðum um stöðugleikasáttmála milli ríkisins og aðilum vinnumarkaðarins. Árni Stefán Jónsson starfandi formaður BSRB sagði í samtali við mbl.is að hann gæti ekki skrifað undir samninginn eins og hann lægi á borðinu núna.

 „Ég er á leið á fund hjá forsætisráðherra, ég held að menn séu að reyna að halda lífi í stöðugleikasáttmálanum," sagði Árni Stefán sem þvertók fyrir að hann væri búinn að gefa sáttmálann upp á bátinn.

„Nei, nei, en við opinberir starfsmenn gátum ekki staðið á bak við þennan texta, að það ætti að binda ríkisstjórnin á þann veg að hún mætti ekki hækka tekjuhlutfallið inn í ríkissjóð meira en 45% og okkur fannst menn vera að binda hendur ríkisstjórnarinnar allt of mikið," sagði Árni Stefán.

Hann bætti því við að að hans mati yrði þá að skera niður verulega í  opinberum rekstri 2011. „Það er bara allt of stór biti, það yrði bara til þess að veikja almannaþjónustuna og velferðarkerfið," sagði Árni Stefán að lokum.

Búið er að boða öll heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins á fund í stjórnarráðinu. Samtök Atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Samband íslenskra sveitafélaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert