Borgum Icesave með rafmagni til Bretlands um sæstreng

Friðrik Hansen Guðmundsson verkfræðingur.
Friðrik Hansen Guðmundsson verkfræðingur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, verkfræðingur varpar fram þeirri hugmynd á bloggsíðu sinni í morgun, að Íslendingar greiði Icesave-skuldina við Breta með því að selja þeim rafmagn í gegnum sæstreng. Til þessa þurfi að reisa 1000 megavatta virkjun. Þess má geta að Kárahnjúkavirkjun er 690 megavött og Búrfell 210.

Erlendir samstarfsamenn Friðriks vilja setja hér upp verksmiðju sem framleiðir jarðstrengi og sæstrengi.

„Ef niðurstaðan verður sú að það lendir á almenningi að greiða skuldir íslenskra bankamanna þá eigum við að reyna að snúa þessu Icesave máli okkur í hag þannig að þessir Icesave samningar verði okkur til gæfu, ekki ógæfu,“ segir Friðrik Hansen Guðmundsson.

Friðrik kastar fram þessari hugmynd til gamans, en samt í fullri alvöru: „Erlendir samstarfsaðilar mínir hafa áhuga á að setja hér upp verksmiðju sem framleiðir jarðstrengi og sæstrengi. Ný gerð háleiðandi háspennustrengja með kjarna úr grafíti umvafinn áli hefur verið í þróun á undanförnum áratug. Þessa dagana er unnið við mælingar og prófanir á fyrstu köplum þessarar gerðar. Það eru meðal annars slíkir kaplar sem við viljum framleiða hér á landi auk hefðbundinna háspennukapla úr áli. Þessi nýja tegund háspennukapla gefur gömlum draum okkar Íslendinga nýtt líf, þ.e. að selja raforku til Evrópu eða Bandaríkjanna gegnum sæstreng. Þó rafmagn sé sent með slíkum háleiðandi köplum langar leiðir þá er orkutapið óverulegt og margfalt minna en í hefðbundnum kopar- og álköplum. Þessi nýja gerð kapla er auk þess miklu nettari sem auðveldar mjög lagningu þeirra.

Raforkuverð í Evrópu hefur hækkað mikið síðusta áratuginn og engar spár gera ráð fyrir þvi að það fari lækkandi. 60% raforkunnar er framleitt með gasi sem að mestu kemur frá Rússlandi. Rússar eru alltaf að hækka verð á gasinu en auk þess fara byrgðir af jarðgasi minnkandi í Evrópu.

Það sem við eigum að gera er að segja við Breta: Við getum ekki borgað ykkur með peningum en við getum borgað ykkur með rafmagni. Við leggjum til ykkar þúsund megavatta (MW) sæstreng, þið kaupið af okkur rafmagn og við notum þær tekjur til að borga Icesave.

Eftir 7 ár eigum við að byrja að borga af Icesave. Við höfum því 7 ár til þess að virkja hér 1.000 MW, reisa kapalverksmiðjuna og ná tökum á því að framleiða þessa háleiðandi kapla. Mínir samstarfsaðilar telja að slík verksmiðja gæti verið komin í gagnið eftir 2 til 3 ár. Með undirbúningi, samningsgerð og tímanum sem fer í að framleiða kapalinn, þá passar það fínt að við verðum tilbúin með rafmagn á slíkan kapal kominn á landi í Skotlandi eftir 5 til 7 ár. Bara þetta verkefni eitt að virkja hér þúsund megavött, reisa kapalverksmiðjuna og búa til þennan sæstreng, þessi framkvæmd ein og sér myndi þurrka út allt sem heitir kreppa á Íslandi.

Svartsýnustu spár gera ráð fyrir að Icesave skuldin verið með vöxtum um þúsund milljarðar eftir 7 ár, þ.e. um 4 milljarðar punda. Eitt þúsund megavatta sæstrengur til Skotlands með virkjunum kostar sjálfsagt um 2,5 milljarða punda. Ef ríki ESB leggja svona mikla áherslu á að Ísland standi við ESB tilskipunina að tryggja 20.888 evrur á hverjum innlánsreikningi þannig að bankakerfi ESB fari ekki í rúst, þá eigum við að fara fram á að þessar þjóðir í ESB láni okkur þessa 2,5 milljarða punda svo við getum virkjað og framleitt þennan sæstreng þannig að við getum borgað Bretum og Hollendingum.

Miðað við að kílóvattstundin kosti 40 krónur á Bretlandi (18 penní) þá eru tekjurnar af sölu á þúsund megawöttum af rafmagni á einu ári um 1,5 milljarður punda.

Látum ríki ESB lána okkur fyrir virkjunum og þúsund megawatta sæstreng til Bretlands. Látum Breta borga fyrir okkur Icesave með kaupum á rafmagni. Sæstrengurinn sér um að borga sjálfan sig og Icesave á átta til 10 árum. Þá eigum við sæstrenginn skuldlausan og Icesave er út úr myndinni og við Íslendingar höfum aldrei þurft að leggja fram eina einustu krónu. Sæstrengurinn mun síðan malla þjóðinni gull um ókomin ár.Það eina sem við þurfum að gera er að segja við Breta:

Við getum ekki borgað með peningum en við getum borgað með rafmagni.

Þess má geta að Kárahnjúkavirkjun er 690 megavött og Búrfell 210 megavött.

www.fhg.blog.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert