Ögmundi stillt upp við vegg?

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra.
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra neitar að láta bæjarstjóra Reykjanesbæjar stilla sér upp við vegg, en Heilsufélag Reykjaness, Salt Investments og norræna heilbrigðisfyrirtækið Nordhus medical bíða svara um hvort leigja megi vannýttar skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til þeirra.

Nordhus vill, í samstarfi við Salt, skera norræna sjúklinga á biðlistum heima fyrir upp á skurðstofunum og hefur þegar trygga samninga við norsk og sænsk stjórnvöld um niðurgreiðslu. Erindið var fyrst borið upp við Ögmund í febrúar.

Ögmundur lofar að Árni Sigfússon, bæjarstjóri og stjórnarformaður Heilsufélagsins, heyri í sér í vikunni: „En við skipuleggjum heilbrigðisþjónustuna út frá langtímahagsmunum hennar en ekki skammtímaviðskiptahagsmunum, það er alveg ljóst.“ Hann endurskipuleggi nú rekstur heilbrigðisstofnana ríkisins. „Ef menn geta ekki haldið í sér þær vikur sem þessu vindur fram verða menn að eiga það við sjálfa sig.“

Ögmundur bendir á að landsmenn horfi nú upp á stóra viðskiptadrauma verða að engu, nú síðast þegar Sjóvá tapaði milljörðum í Hong Kong: „Ég er ekki að segja að þetta séu sambærileg dæmi en þá er það okkur víti til varnaðar að verða vitni að því aftur og aftur hve fallvalt er að gera grunnþjónustu háða viðskiptahagsmunum. Þess vegna vil ég stíga varlega til jarðar í þeim efnum fyrir hönd skattgreiðenda og samfélagsins.“

Árni segir að í bréfi frá Heilbrigðisstofnuninni til Heilsufélagsins 5. júní komi fram að hún hefði áhuga á samstarfinu en ráðuneytið legðist gegn því. Nýting skurðstofanna sé um 10% og heilsutengd þjónusta geti skapað 300 störf innan sveitarfélagsins: „Verði svarið neikvætt er verið að skemma hér stórt atvinnutækifæri.“

Otto Nordhus, stofnandi Nordhus medical, er undrandi á biðinni: „Íslensk stjórnvöld leituðu til norrænu samherja sinna í leit að lánum. Þau voru veitt en þegar þeim býðst að fjölga störfum segja þau nei!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert