Boðar auknar álögur á áfengi og tóbak

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra boðar allt að fjögurra milljarða króna hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi á næstu mánuðum. Ráðherra segir í skýrslu um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 að hækka megi áfengisgjald um 30-40% og tóbaksgjald um 30-40% í tveimur áföngum á þessu og næsta ári. Áfengis- og tóbaksgjöld voru hækkuð um 15% í maí síðastliðnum.

Áfengisgjald er lagt á hvern cl af hreinu áfengi og er nú tæpar 60 krónur fyrir vín, um 66 krónur fyrir bjór og tæpar 80 krónur á sterka drykki. Í skýrslunni segir að hefðu þessi gjöld fylgt vísistölu neysluverðs frá upphafi væru þau öll um 113 krónur. Tekjur af áfengisgjaldi 2008 eru áætlaðar um 8 milljarðar króna. Fjármálaráðherra telur að unnt ætti að vera að hækka áfengisgjald um 30–40% á næstu árum t.d. í þremur 10% áföngum, t.d. 1. júlí n.k., 1. janúar 2010 og 1. janúar 2011. Slík hækkun myndi skila ríkissjóði um eða yfir 800 milljónum króna hver um sig eða samtals um 2,5 milljörðum króna.

Tóbaksgjald er nú um 257 krónur á einingu (20 stk.). Það hefur fylgt verðlagi frá upptöku. Sígarettur eru samt ódýrari hér en í flestum löndum V-Evrópu. Tekjur af gjaldinu voru um 3,9 milljarðar króna 2008. Fjármálaráðherra segir að stefna mætti að því að hækka tóbaksgjaldið um 30 til 40% í tveimur áföngum 2009 og 2010. Slík hækkun myndi skila einum til einum og hálfum milljarði króna.

Skattar á gistingu og flugfarseðla

Fleiri skattahækkanir eru nefndar í skýrslu fjármálaráðherra, meðal annars skattur á komufarþega og hótelgistingu. Algengt er að lagður sé sérstakur skattur á hótelgistingu og kæmi að mati ráðherra til álita að gera slíkt hér. Skortur er á fé til að standa undir kostnaði við aðstöðu í þjóðgörðum og á ferðamannastöðum og telur ráðherra að athuga mætti þessa skattheimtu með það fyrir augum að tekjur af henni færist smám saman yfir til slíkra verkefna. Til að jafna nokkuð á milli mismunandi gistiforma er unnt að taka hluta af þessum tekjum með gjaldi á flugfarseðla til landsins.

Gistinætur á hótelum eru um 1,5 milljónir á ári. Með 300 króna gjaldi að
jafnaði á gistinótt yrðu tekjur um 450 milljónir króna á ári. Gjald á hvern farseðil að fjárhæð 500 krónur gæfi um 250 milljónir miðað við 500 þúsund komur til landsins eða alls um 700 milljónir króna. Ráðherra segir að hugsa mætti sér að í upphafi rynni 1/4 af þeirri fjárhæð til þjóðgarða og verkefna í tengslum við ferðaþjónustu en sá hluti fari hækkandi þegar fjárhagur ríkissjóðs batnar.

Olíugjald og bensíngjald

Fjármálaráðherra nefnir að til greina komi að hækka bensíngjald og olíugjald en með lagabreytingu nýlega var bensíngjaldið hækkað um 10 krónur á lítra og olíugjaldið um 5 krónur á lítra á miðju ári 2009 en hækkunin verður ekki látin ná til flutningabifreiða og almenningssamgangna.

Umhverfis- og auðlindagjöld

Þá segir í skýrslu fjármálaráðherra að í athugun hafi verið með hvaða hætti mætti leggja gjald á alla vöru og hráefnisnotkun sem veldur kolefnislosun. Er þar um að ræða kol, koks, bensín, þotueldsneyti, gasolíu og rafskaut. Samtals er talið að losun kolefnis við notkun þessara efna hér á landi nemi um 1 milljón tonna á ári. Verð á losunarheimildum innan ESB er nú um 14 evrur á tonn af koldíoxíði sem svarar til um 46 evra á tonn af kolefni. Kolefnisgjald sem svarar til þessa
verðs yrði um 7.700 krónur á tonn af kolefni. Tekjur af slíku gjaldi myndu nema um 7,7 milljörðum króna á ári. Ef af verður segir ráðherra hugsanlegt að byrja lægra t.d. með 2.500 krónur á tonn í þremur
áföngum og má þá ætla að tekjur gætu orðið um 2,5 milljarðar á ári og alls um 7,5 milljarðar.

Auðlindagjöld í eiginlegri merkingu eru ekki til staðar að frátöldu svokölluðu veiðileyfagjaldi sem á að óbreyttum lögum að taka aftur upp í haust. Í skýrslu fjármálaráðherra segir að full ástæða sé til að huga að slíkri gjaldtöku almennt. Takmarkaðar auðlindir eða takmörkun á aðgangi að auðlindum skapi auðlindarentu fyrir eigandann. Ef eigandinn er ríkið er vart um aðrar leiðir til að tryggja að arður af auðlindinni renni til ríkisins en þær að ríkið nýti auðlindirnar sjálft eða ráðstafi þeim til annarra gegn gjaldi. Sé hvorugt gert rennur auðlindarentan til þess sem fær notkunarréttinn eða er í aðstöðu til að njóta hans.

Virðisaukaskattur

Loks er í skýrslunni nefnt að ná megi allt að 12 milljörðum króna í ríkissjóð með hækkun virðisaukaskatts.

Virðisaukaskattur er nú lagður á í tveimur þrepum, almennt þrep er 24,5% og lægra þrep er 7%, sem í er matvara og nokkrar tegundir annarrar vöru og þjónustu. Lítið er um almennar undanþágur sem máli skipta. Þótt VSK sé hár hér á landi eru dæmi um að hann sé 25% svo sem í Danmörku sem auk þess leggur þann skatt á alla skattskylda sölu
á vörum og þjónustu. Til álita koma ýmsar breytingar.

Hvort sem er skattafræðilegu eða framkvæmdalegu sjónarmiði er æskilegt að draga úr mismun á skatthlutföllum. Annmarkar við að hækka lægra skattþrepið eru helstir þeir að það kynni að leiða til nokkurrar verðhækkana á matvörum og því leggjast nokkuð þungt á tekjulága sem almennt er talið að verji stærri hluta tekna sinna í matvörur. Athuganir
og reynsla af svona mismunun styður þessa skoðun aðeins að litlu leyti. Álitamál er hvort lækkun á lægra þrepinu nýverið hafi skilað sér í vöruverði eða ekki. Ennfremur liggja fyrir tölur frá Hagstofu Íslands um það að lítill munur er á þeim hluta neysluútgjalda sem heimili verja til matvörukaupa eftir tekjum og áhrif þessarar mismununar á tekjudreifingu því lítil.

Hækkun á lægra skatthlutfallinu úr 7% í 12% eins og algengt er hjá þjóðum sem hafa tvö skattþrep gæti leitt til um 7 milljarða króna tekjuhækkunar og hækkun í 14% gæfi af sér um 10 milljarða.

Hækkun á almenna hlutfallinu úr 24,5% í 25% gæfi um 2 milljarða króna í auknar tekjur. Helstu ókostir eru verðlagsáhrif en þau eru þó óviss við þær aðstæður sem nú er.

mbl.is

Bloggað um fréttina