60-70 milljarða árleg greiðsla

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið. Reuters

Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins áætlar, að greiðslur úr ríkissjóði vegna ríkisábyrgðar á Icesave-skuldbindingum gætu orðið á bilinu 60–70 milljarðar kr. árlega á árabilinu 2017 til 2023, en helmingur þeirrar upphæðar árin 2016 og 2024.

Heildarskuldbindingin samkvæmt samningunum er um 705 milljarðar króna miðað við núverandi gengi krónunnar, sem er um 49% af vergri landsframleiðslu  árið 2009.

Fram til 2016 munu eignir úr þrotabúi Landsbankans greiðast inn á höfuðstól lánsins og ræðst það af greiðslum úr þrotabúinu hversu hátt lán Tryggingarsjóðs innistæðueigenda verður.

Reiknað hefur verið út að ef 60% af eignum Landsbankans endurheimtast yrði skuldbinding íslenska ríkisins 521 milljarður króna eða 26% af vergri landsframleiðslu árið 2016 og 309 milljarðar eða 15% af landsframleiðslu miðað við 90% endurheimtur á forgangskröfum.

Ef gert ráð fyrir að meðaltal þessara forsendna um endurheimtur forgangskröfuhafa komi til eða að 75% af kröfum endurheimtist gætu um 415 milljarðar króna fallið á ríkissjóð vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðsins eða um 21% af vergri landsframleiðslu árið 2016. Þessi fjárhæð kæmi til greiðslu í 32 greiðslum á átta árum ásamt árlegum 5,55% vöxtum. Árleg greiðsla af höfuðstól yrði þannig um 50 milljarðar króna og vaxtagreiðslur fallandi frá 22 milljörðum króna.

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert