Árni átti í vök að verjast

Árni M. Mathiesen.
Árni M. Mathiesen.

Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, átti í vök að verjast á fundi fjármálaráðherra Evrópusambandsríkja (ESB) og  EFTA ríkjanna í Brussel í byrjun nóvember á síðasta ári, þar sem ákveðið var að skipa gerðardóm til að skilgreina skuldbindingar Íslands gagnvart Icesave-reikingunum.

Þetta kemur fram í skýrslu, sem Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel, sendi íslenska utanríkisráðuneytinu um fundinn og er í skjölum, sem birt voru á vefsíðunni íslandi.is í kvöld.

Á fundinum var ákveðið að skipa gerðardóm með fulltrúum tilnefndum af ráðherraráði ESB, framkvæmdastjórn ESB, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA (sem væri tilnefndur af Íslandi), en Seðlabanki Evrópu skipaði oddamanninn.

Í skýrslu Stefáns segir, að  McCreevy, sem situr í framkvæmdastjórn ESB, hafi beint því til íslenska ráðherrans, Árna, hvort Íslendingar gerðu sér grein fyrir því að niðurstaða nefndarinnar væri bindandi og Árni hefði jánkað því. „Engar umræður urðu um það hvað fælist í orðinu „bindandi"," segir í skýrslunni.

Þar segir síðan: „Á sama tíma er málið með enn skýrari hætti en áður tengt við IMF (Alþjóðagjaldeyrissjóðinn). Mikil harka kom fram á fundinum og vakti framganga Þjóðverja sérstaka athygli. Má telja víst að hlutaðeigandi ríki hafi verið búin að stilla saman strengi. Átti íslenski ráðherrann í vök að verjast."

Þegar í ljós kom að umboð dómsins til að skilgreina skuldbindingar Íslands væri mjög víðtækt, dóminum væri ætlaður mjög skammur tími til að komast að niðurstöðu, og að niðurstaðan væri bindandi, var það mat ríkisstjórnarinnar að Ísland gæti ekki fallist á þessa málsmeðferð.

Hinir fulltrúarnir komu engu að síður saman og gáfu samdóma álit eftir rúmlega sólarhringsskoðun um að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstrygginga samkvæmt tilskipuninni dygðu eignir Tryggingarsjóðsins ekki til. Ísland hefur ekki viðurkennt þessa niðurstöðu.

Ísland.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert